- Advertisement -

Sjómannadagurinn og skrifstofustjórinn

 

Það var að mig minnir á sjómanndaginn 1977 sem ég var í fríi. Var sem sagt ekki á sjó þennan sjómannadag, en flestir skipsfélagar mínir á Sólbaki EA 5 voru á sjó. Eiginkonur þeirra voru því einar með börnin við hátíðarhöldin á sjómannadag. Flestir sjómennirnir voru fjarverandi vegna vinnu sinnar. Síðar var sjómannadagurinn gerður að frídegi sjómanna. Lengi vel var ekki svo.

Um borð í Sólbaki var ég oft í lestinni. Þar raðaði ég aflanum í kassa og ísaði. Eftir því sem þessi vinna var betur unnin var fiskurinn dýrmætari, laun okkar sjómanna hækkuðu og þá væntanlega hagur útgerðarinnar. Svo vildi til að við á Sólbaki voru með hærra hlutfall afla í fyrsta flokk en aðrir togarar Útgerðarfélags Akureyringa.

Jæja, sjómannadagurinn 1977. Hátíðarhöld voru við Sundlaug Akureyrar. Ég stóð þar í mannþröng og skemmti mér með ágætum. Var samt með hugann við hversu bilað þetta var. Sjómenn, sem einsog áður sagði, langflestir út á sjó, en vel var um þá talað. Börnin þeirra voru einu föðurlausu börnin þennan annars ágæta sunnudag.

Þú gætir haft áhuga á þessum
Sólbakur EA 5.

Skyndilega segir þulur hátíðarhaldanna að næst fari fram verðlaunaafhending til þess togara sem var með hæsta matið á lönduðum fiski. Mér brá við. Hugsaði strax til lestarinnar í Sólbaki, þreytunnar, bakverkjanna, fjarvistanna og alls sem þarf að þola vegna starfa á sjónum.

Til að taka á móti verðlaununum var skrifstofustjóri ÚA kallar upp á svið. Farið var nokkrum orðum um þýðingu þess að vanda meðferð og frágang aflans. Skrifstofustjórinn tók við bikarnum lyfti honum upp sigri hrósandi. Mannfjöldinn klappaði vel og lengi. Allir nema einn. Lestarstjórinn ég.

Sjómenn, til hamingju með daginn.

Sigurjón M. Egilsson.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: