- Advertisement -

Segja aldraða koma í veg samgöngubætur

- Björgvin Guðmundsson skrifaði

Stjórnarherrarnir eru alltaf að gorta af því hvað þeir hafi hækkað greiðslur til aldraðra og öryrkja mikið um síðustu áramót. Lífeyrisfólk hefur ekki fundið fyrir þessum hækkunum á eigin skinni. Og þeir aldraðir,sem reynt hafa að vera á vinnumarkaði hafa sætt verri stöðu en áður vegna aukinna skerðinga tryggingalífeyris. Bjarni kökubakari kom í sjónvarpið í gær beint frá kökukeppninni í New York og átti ekki nógu sterk orð til þess að básúna miklar hækkanir lífeyrisfólks um áramótin; svei mér ef hann sagði ekki að greiðslur til aldraðra og öryrkja hefðu hækkað um tugi milljarða! En hverjar eru staðreyndir málsins.

Þær eru þessar: Fyrrverandi ríkisstjórn með Bjarna sem fjármálaráðherra lagði fram frumvarp um almannatryggingar með 0 krónu hækkun til þeirra verst stöddu en samt átti það að kosta tæpa 5 milljarða vegna þess að draga átti nokkuð úr skerðingum vegna lífeyrissjóða; m.ö.o. taka minna af öldruðum ófrjálsri hendi! Ríkisstjórnin var eiginlega rekin til baka með þetta frumvarp, þar eð 1000 manna fundur eldri borgara í Háskólabíói krafðist þess, að lagfæringar yrðu gerðar á frumvarpinu. Ríkisstjórnin lét undan og lagfærði frumvarpið örlítið; lét 5 milljarða í það í viðbót. Alls voru þetta ca 10 milljarðar. Það er aðeins þriðjungur þess, sem ríkið tekur af öldruðum á ári ófrjálsri hendi vegna skerðinga á tryggingalífeyri aldraðra.

Hækkunin til aldraðra og öryrkja um áramót, 10 milljarðar, sem er mest vegna minni skerðinga eru smáaurar miðað við það sem látið er til annarra greina samfélagsins. Hvað kostaði til dæmis hækkunin á launum ráðherra í 2 millj á mánuði, og hækkunin á launum þingmanna í 1,1 milljón á mánuði og miklar hækkanir embættismanna,sem sumar hverjar giltu 18 mánuði til baka.Ráðherrar tala minna um þær hækkanir. Jón Gunnarsson samgönguráðherra var svo ósvífinn í kastljósþætti, að hann sagði tvisvar í þættinum, að það hefði verið hækkað svo mikið til aldraðra, að ekki hefði verið unnt að láta meira fé í vegina. Hann gerði m.ö.o aldraða að blóraböggli! Þessir herrar ættu að reyna að lifa í einn mánuð á ellilífeyri þeirra, sem verða að lifa eingöngu á lífeyri almannatrygginga; 197 þúsund krónur á mánuði, ef um hjónaband eða sambúð er að ræða og 227 þúsund á mánuði, ef um einhleypinga er að ræða!!

Björgvin Guðmundsson.

Þú gætir haft áhuga á þessum

(Fyrirsögnin er ritstjórans).


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: