- Advertisement -

Biophiliu hleypt af stokkunum

Búið er að hleypa Biophiliu kennsluverkefninu af stokkunum en verkefnið er eitt af formennskuverkefnum Íslands í Norrænu ráðherranefndinni á yfirstandandi ári undir stjórn mennta- og menningarmálaráðuneytisins. Björk Guðmundsdóttir, listamaður, þróaði aðferðina.

Á vef menntamálaráðuneytis kemur fram að samstarfsaðilar frá öllum fimm Norðurlöndunum auk Álandseyja, Færeyja og Grænlands hafi hist á Íslandi til þess að taka fyrstu skrefin í þessu norræna samstarfsverkefni. Hvert landanna hefur skipað stýrihóp og tilgreint svæði þar sem Biophilia verður kennd á næsta ári. Verkefnið er til þriggja ára; árið 2014 fer í undirbúning, árið 2015 í framkvæmd á Norðurlöndunum og árið 2016 í mat og eftirfylgni.
Svæðin eru eftirfarandi:
Danmörk: Álaborg
Finnland: Grankulla/Kaunainen
Noregur: Strand sveitarfélag
Svíþjóð: Sundsvall
Álandseyjar: Mariehamn
Færeyjar: Þórshöfn
Grænland: Sisimiut

Biophilia er viðamikið kennsluverkefni sem byggir á víðtækri þátttöku fræðimanna, vísindamanna, listamanna, kennara og nemenda á öllum skólastigum. Það byggist á því að nota sköpun sem menntunar- og rannsóknaraðferð þar sem náttúruvísindi, tónlist og tækni eru tengd saman á nýstárlegan hátt.

Markmiðið með Biophilia kennsluverkefninu í norræna samstarfinu er að:
·         efla nýsköpun í skólastarfinu með því að þróa kennsluaðferðir sem sameina þekkingu, sköpun og tækni,
·         umbreyta hefðbundnum kennsluháttum með þverfaglegri nálgun, þvert á aldurshópa, kennslugreinar og fagsvið,
·         þróa staðbundin samstarfsnet í þátttökulöndunum, sem tengjast á norrænum samstarfsvettvangi og þar sem unnið verður að því að efla norrænt notagildi,
·         þróa veflægan starfsvettvang fyrir norrænt samstarf , án landamæra og fyrir mismunandi faghópa,sem verður áfram til eftir að verkefninu lýkur.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Verkefnið á uppruna sinn hér á landi þar sem Björk Guðmundsdóttir tónlistarmaður hefur þróað þessa nýstárlegu aðferð í samstarfi við Háskóla Íslands og Reykjavíkurborg.   Biophilia kennsluverkefnið byggist m.a. á þeirri grunnhugmynd að best sé að börn hefji listiðkun sína með sköpun þar sem tónlist, vísindi og tækni eru samþætt á nýstárlegan hátt. Með Biophiliu aðferðinni er leitast við að brjóta upp hið hefðbundna kennsluform. Kennarar, fræði- og vísindamenn, listamenn, hugvitsmenn og aðrir þátttakendur vinna þverfaglega, á milli skólastiga,  námsgreina, vísinda og lista þar sem sköpun er notuð sem kennsluaðferð og til að örva umhverfisvitund.

Sjá nánar á vef ráðuneytis.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: