- Advertisement -

Birgir kafli 1: Birgir fyrir kosningar og eftir

Sigurjón Magnús Egilsson:

Birgir í mars: „Þessi áætlun sýnir að ríkisstjórnarflokkarnir ætla sér að leggja upp með aðferðafræði sem skilar litlum árangri og það er gott að vita fyrir kosningar.“

Birgir Þórarinsson var boðinn velkominn í þingflokk Sjálfstæðisflokksins. Sárin virðast gróa hratt hjá hinum félögum Birgis og viðsnúningur hans er algjör:

„Ríkisstjórnin hefur lagt fram sína síðustu fjármálaáætlun og er hún hvorki fugl né fiskur. Áætlunin blæs ekki þeim þúsundum Íslendinga von í brjóst sem eru atvinnulausir, því miður. Þessi áætlun er metnaðarlaus og samin út frá því að skila ákveðnu skuldahlutfalli, undir 60%, árið 2026, þrátt fyrir að atvinnuleysi hafi aldrei verið eins hátt og stærsta atvinnugrein þjóðarinnar sé í gjörgæslu. Við erum með eitt lægsta skuldahlutfall Evrópu og það er öruggt svigrúm til að mæta atvinnulausum og heimilum þessa lands sem eru í vanda. Það er mikið í húfi, en ríkisstjórnin hefur takmarkaðan skilning á því. Ríkisstjórnin staglast á því að hún hafi eytt svo miklu í aðgerðir vegna veirufaraldursins. Tölurnar tala hins vegar öðru máli. Ríkisstjórnin hamrar stöðugt á því að aukning í nýsköpun sé í hæstu hæðum en hún skilar ekki því sem hún á að gera. Það er ekkert um það hvað þessar fjárfestingar í nýsköpun eiga að skila mörgum nýjum sjálfbærum störfum,“ sagði Birgir á Alþingi fyrir aðeins hálfu ári. Hann er eins og skopparakringla.

„Ekki er verið að nota ríkisfjármálin nægilega til þess að fjölga störfum í gegnum einkaframtakið, virkja einkaframtakið til góðra verka til að fjölga mikilvægum störfum. Hið mikla atvinnuleysi sem við glímum nú við er þjóðinni mjög dýrt, svo ekki sé talað um andlega þáttinn og þá erfiðleika sem fylgja því að vera atvinnulaus. En hvað erum við búin að gera í samanburði við aðrar þjóðir í þeim efnum til að fjölga störfum? Í Bandaríkjunum er búið að setja 1,8 millj. kr. á hvern mann í aðgerðir til að fjölga störfum, hvert einasta mannsbarn í Bandaríkjunum. Hér reiknast mér til að aðgerðir ríkisstjórnarinnar séu u.þ.b. 540.000 kr. á hvern Íslending. Við sjáum því glöggt að við erum eftirbátar annarra þjóða í efnahagsaðgerðum vegna veirufaraldursins,“ sagði Birgir, nú þingmaður flokks fjárnálaráðherra.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Best að birta alla ræðuna hér:

Um Bjarna ráðherra:

Fjármálaráðherra sagði í umræðunni á Alþingi um þessa áætlun að staðan væri nú að batna mjög hratt, en ráðherrann virðist vera í eigin heimi hvað það varðar.

„En það sem er skýrt í þessari áætlun og greinilega mikilvægast í augum ríkisstjórnarinnar, og þá er ekki verið að horfa til þeirra sem eru atvinnulausir, er stefnulaus hækkun á framlögum til loftslagsmála, hækkun sem við vitum ekki hverju skilar, hækkun sem ekki er árangursmæld. Hækkunin nemur 1 milljarði kr. á ári næstu árin. Hæstv. umhverfisráðherra hefur viðurkennt að erfitt sé að mæla hver árangurinn er þegar kemur að því að setja fjármuni í loftslagsmálin. Það vantar árangursmælingar en þær eiga að fylgja í áætlun sem þessari, að hverju sé stefnt og hver sé árangurinn. Það er ekkert talað um eldri borgara og það er ekki talað um hjúkrunarheimilin, en talað er um að setja 1 milljarð á ári í loftslagsmál.

Loftslagsmálin eru vissulega mikilvæg, frú forseti, en ég er þeirrar skoðunar að í þeim aðstæðum sem við erum í í dag, þessu fordæmalausa atvinnuleysi, mesta atvinnuleysi sem þjóðin hefur nokkurn tímann horft upp á, væri nær að setja þennan milljarð árlega í að búa til störf, búa til mikilvæg störf í samstarfi við einkageirann. Hækkun til loftslagsmála getur ekki verið forgangsmál þegar þúsundir Íslendinga eru atvinnulausir. Að búa til störf er forgangsmál. Við setjum fjármuni í loftslagsmálin en við þurfum ekki endilega að hækka framlögin þar akkúrat núna, á þessum tímapunkti, þegar við höfum takmarkaða fjármuni til að hjálpa þeim sem eru hjálpar þurfi. Gert er ráð fyrir 4,7% atvinnuleysi í lok tímabilsins, sem er allt of hátt og í áætluninni segir að verði það hærra þurfi að ráðast í afkomubundnar ráðstafanir. Það þýðir einfaldlega skattahækkanir á góðri íslensku. Það er bara ekki sagt beinum orðum vegna þess að það er óþægilegt fyrir ríkisstjórnina. Það er óraunhæft og sömuleiðis eru óraunhæfar væntingar um að hér verði áfram lágt vaxtastig þegar verðbólga fer hækkandi.

Hagvaxtarforsendur þessara áætlunar voru brostnar sama dag og hún var kynnt. Við þekkjum þær ástæður, að hér virðist sem kórónuveiran hafi náð tökum á ný, okkur öllum til mikilla vonbrigða. En þessi áætlun fjallar ekkert um hvað tekur við þegar aðgerðapakkar ríkisstjórnarinnar renna út núna í maí og atvinnulausum fjölgar enn.

Um Bjarna ráðherra:

Þessi fjármálaáætlun, frú forseti, er uppfull af innihaldslausum yfirlýsingum. Gefin eru vilyrði fyrir fjárfestingum sem hvergi eru sýnilegar.

Fjármálaráðherra sagði í umræðunni á Alþingi um þessa áætlun að staðan væri nú að batna mjög hratt, en ráðherrann virðist vera í eigin heimi hvað það varðar. Það er fyrst og fremst einkaneyslan og íbúðafjárfestingin sem gerir stöðuna betri en menn gerðu ráð fyrir. Eyðsla almennings er lykillinn að því að þetta fór ekki eins illa og stefndi í. Heimilin eru búin að vera að eyða sparnaði sínum en það geta þau ekki endalaust. Það er ekki ríkisstjórninni að þakka að staðan ekki eins slæm og spáð hafði verið þótt hún sé slæm.

Þessi fjármálaáætlun, frú forseti, er uppfull af innihaldslausum yfirlýsingum. Gefin eru vilyrði fyrir fjárfestingum sem hvergi eru sýnilegar, ekki 1 kr. verður sett í nýjan þjóðarleikvang, svo dæmi sé tekið, og mikilvæg innviðaverkefni eru látin bíða. Þessi áætlun á að vera árangurstengd, markmiðatengd. Hún á að fjalla um hagkvæmni og skilvirkni. Þetta eru allt orð sem vantar í áætlunina, sem sýnir að hún er hroðvirknislega unnin og mætir ekki þeim þörfum sem svo sannarlega blasa við okkur öllum. Ný ríkisstjórn er ekki bundin af þessari fjármálaáætlun en það er samt eðlilegt að ræða hlutina. Þessi áætlun sýnir að ríkisstjórnarflokkarnir ætla sér að leggja upp með aðferðafræði sem skilar litlum árangri og það er gott að vita fyrir kosningar.

Frú forseti. Kjarni málsins er þessi: Hér er ríkisstjórn sem er að fara inn í kosningar með þúsundir Íslendinga atvinnulausa og fjármálaáætlun sem er metnaðarlaus og leysir engan vanda. Þannig ríkisstjórn á ekki að styðja.“


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: