- Advertisement -

Bjarni ósveigjanlegur í launadeilunni við hjúkrunarfræðinga

Þorbjörg Sigríður: „Það skiptir máli að ríkið vanræki ekki að sinna fjárfestingum í innviðum.“

Alþingi / „Við sömdum líka við hjúkrunarfræðinga fyrir nokkrum vikum en þeir samningar voru því miður felldir naumlega í atkvæðagreiðslu þeirra,“ sagði fjármálaráðherrann Bjarni Benediktsson á Alþingi í gær.

„Við getum hins vegar ekki samið með þeim hætti að forsenduákvæði annarra samninga ríkisins séu öll í uppnámi. Það getum við ekki gert. Við leggjum áherslu á að halda okkur innan þess svigrúms sem aðrir samningar hafa mótað og eru að verulegu leyti byggðir á svigrúminu í lífskjarasamningunum,“ sagði Bjarni og gerði þar með hjúkrunarfræðingum ljóst að ekkert verður gefið eftir.

Bjarni hélt áfram: „En við höfum náð tímamótaáföngum í þessari samningalotu. Má ég nefna sem dæmi styttingu vinnuvikunnar. Fyrir þá sem ganga mjög langar vaktir er verið að stytta vinnuvikuna niður í allt að 32 klukkustundir, en almenna reglan er að stytta hana niður í 36 klukkustundir. Það var ein af meginkröfum. Við höfum sömuleiðis verið að vinna að því að hækka verulega grunnlaunin. Svo virðist sem það eina sem út af stendur sé almenni launaliðurinn.“

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir Viðreisn spurði ráðherrann og sagði þetta meðal annars eftir að hafa hlustað á Bjarna:

„Það skiptir máli að ríkið vanræki ekki að sinna fjárfestingum í innviðum. Sinnuleysi þar verður að skuld og almenningur greiðir þá skuld, sérstaklega ef flóttinn úr stétt hjúkrunarfræðinga, sem við þekkjum að er veruleiki, heldur áfram.“ 


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: