- Advertisement -

Davíð ósáttur með Bjarna

Stjórnmál „Ekki er að sjá neinn grundvallarmun á skattastefnu núverandi ríkisstjórnar og þeirrar sem á undan henni sat. Vinstri er hægri og hægri vinstri,“ skrifaði Þorsteinn Víglundsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, og Davíð Oddsson tekur upp í Staksteinum Morgunblaðsins.

Í Staksteinum segir að Þorsteinn bendi á að ef tryggingagjaldið lækki ekki á næsta ári séu kjarasamningarnir fyrir tímabilið 2016-2018 í uppnámi, en þeir koma til endurskoðunar í febrúar næstkomandi.

Tryggingagjaldið er enn hátt þrátt fyrir að atvinnuleysi sé lítið og Þorsteinn segir að það skili nú 20-25 milljörðum króna árlega umfram það sem það ætti að gera.

„Og ekki batnar það, því að Þorsteinn bendir á að fjölmargir „kreppuskattar“ hafi verið lagðir á í tíð fyrri ríkisstjórnar og skattheimta á atvinnulífið hafi aukist mikið.“

Svo er vitnað í Þorstein: „Árleg tekjuaukning ríkisins af þeim völdum nemur 85 milljörðum en niðurskurður útgjalda hefur verið mun minni en áformað var. Ekki er að sjá neinn grundvallarmun á skattastefnu núverandi ríkisstjórnar og þeirrar sem á undan henni sat. Vinstri er hægri og hægri vinstri.“

Þetta segja Staksteinar ekki fagran vitnisburð um þá stefnu í ríkisfjármálum; „…sem tók við af skattpíningarstefnu vinstri stjórnarinnar en því miður er mikið til í honum. Núverandi stjórnvöld geta hins vegar byrjað að reka af sér slyðruorðið í skattamálum með því að lækka tryggingagjaldið myndarlega um næstu áramót. Þorsteinn segir engin merki sjáanleg um að ætlunin sé að lækka tryggingagjaldið, nú þegar önnur umræða um fjárlög er framundan. Getur það verið?“


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: