- Advertisement -

Mun Alþingi ákæra Svandísi?

Teitur Björn vildi ekki svara því hvernig hann myndi greiða atkvæði ef vantrauststillaga kæmi fram á Alþingi.

Margt hefur verið sagt og margt hefur verið skrifað um stöðu Svandísar Svavarsdóttur. Bergþór Ólason hefur, enn sem komið er, tekið fastar til orða en aðrir.

Mogginn er í sama stuði og liðna daga. Þar á meðal er þetta i Mogga dagsins og haft eftir Bergþóri:

„Þótt hann væri ekki hlynntur því að stjórnmálamenn væru dregnir fyrir Landsdóm, þá sýndist sér að forsendur væru til að gefa út ákæru á hendur henni.“

Það er ekkert annað. Meira úr Moggafréttinni:

Hann benti á að hvalveiðibannið hefði bakað fjölda manns og Hvali hf. mikið tjón, sem skattgreiðendur þyrftu að bera.

Bergþór minnti á að matvælaráðherra sætti einnig ábyrgð þingflokka Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks, þeir gætu ekki vikið sér undan henni. Embættisfærsla Svandísar hefði verið fyrir neðan allar hellur og græfi undan stjórnskipan landsins.

Í Mogga er einnig vitnað í ummæli Teits Björns Einarssonar Sjálfstæðisflokki:

„Það er ekki hægt að horfa upp á þessar stjórnarákvarðanir ráðherrans og láta þær átölulausar,“ segir Teitur, samherji Svandísar í ríkisstjórn. Það væri hlutverk Vinstri-grænna að finna lausn á því og endurbyggja það traust sem hún hefði grafið undan.

Hann vildi ekki svara því hvernig hann myndi greiða atkvæði ef vantrauststillaga kæmi fram á Alþingi.

-sme


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: