- Advertisement -

Draumaveröld nýfrjálshyggjunnar er hrunin

Gunnar Smári skrifar:

Það er svolítið fyndið að sjá nýfrjálshyggjuliðið reyna að fóta sig á tímum þar sem viðurkennt er að ríkið er aðalleikandinn í kreppu, sá eini sem einhverju getur breytt. Fyrst reyna þau að dæla peningum út í bankakerfið í trausti þess að það leiði til aukinnar innspýtingar fjármagns til ráðstöfunar fyrir eigendur fyrirtækja, en reka sig svo á að samkvæmt leikreglum bankakerfis er því lífsins ómögulegt að lána þeim sem eru ekki eru borgunarmenn. Sá bankamaður sem það gerir er settur á Kvíabryggju fyrir umboðssvik.

Þá ætti að renna upp fyrir nýfrjálshyggjuliðinu að enginn getur sett fé í fyrirtæki sem standast ekki lántökumat nema ríkið. Í kreppunni miklu var búinn til kreppulánasjóður, sem vann eftir sérstökum lögum og var heimilt að fara með áhættufé almennings, lána það inn í þau fyrirtæki sem þóttu mikilvæg en gátu reitt fram veð eða sannað að óbreyttu að þau gæti staðið í skilum með lánið. En í stað þess að sætta sig við þetta, að nauðsynlegt sé að byggja upp stofnanir og sjóði á vegum ríkisins til að sinna hratt vaxandi hlutverki þess, þá gælir nýfrjálshyggjuliðið við að breyta viðskiptabönkunum í kreppulánasjóði, að heimila þeim að hegða sér eins og væru þeir félagsleg stofnun á vegum ríkisins.

Farið frá og leyfið öðru fólki að byggja upp nýtt og betra samfélag.

Sættið ykkur frekar við breytta tíma, hinn svokallaði markaður er algjörlega getulaus til að mæta kreppunni. Aðeins ríkið hefur bjargirnar. Og byggið upp stofnanir og kerfi svo að ríkið geti sinnt hlutverki sínu. Þessi þráhyggja ykkar, að lausnin sé að dæla aðgerðunum í gegnum hinn svokallaða markað, mun ekki gera annað en að stífla allar pípur svo engin aðstoð kemst til skila. Draumaveröld nýfrjálshyggjunnar er hrunin. Farið frá og leyfið öðru fólki að byggja upp nýtt og betra samfélag.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: