- Advertisement -

„Ég trúi því ekki að óreyndu að þingheimur falli fyrir slíku bulli“

Ásthildur Lóa Þórsdóttir skrifar:

Hver ríkisstjórnin á fætur annarri hefur bugtað sig og beygt fyrir þeim í fullkominni meðvirkni og eftirlitsstofnanir lítið haft sig í frammi.

Bankarnir skilað methagnaði. „Ekki methagnaði eftir mörg mögur ár. Nei, þvert á móti, eftir mörg feit og góð ár var methagnaður hjá þeim í miðjum alheimsfaraldri og alheimskreppu. Þeir eru því ekki á flæðiskeri staddir og ættu að geta lagt meira til samfélagsins en þeir gera án þess að muna mikið um það. Þessi hagnaður er heldur ekki til kominn vegna gríðarlegra klókinda bankamanna í fjármálum. Dæmin sem sanna að þeir séu vægast sagt mistækir eru nokkuð mörg, en þeir hafa hins vegar alveg einstakan aðgang að heimilum og fyrirtækjum landsins, ásamt því sem hver ríkisstjórnin á fætur annarri hefur bugtað sig og beygt fyrir þeim í fullkominni meðvirkni og eftirlitsstofnanir lítið haft sig í frammi. Það er kominn tími til að það breytist. Það er kominn tími til að við hér á Alþingi, sem höfum verið kjörin fyrir fólkið í landinu, til að gæta hagsmuna þess, förum að taka hagsmuni fólksins fram yfir hagsmuni bankanna,“ sagði Ásthildur Lóa Þórsdóttir Flokki fólksins og formaður Hagsmunasamtaka heimilanna, í kröftugri þingræðu.

„Bankaskatturinn mun ekki hafa nein áhrif á hækkun eða lækkun vaxta. Bankarnir munu hækka vexti, alveg sama hvað, sjái þeir minnsta tilefni til þess. Ekki út af hærri bankaskatti, heldur einfaldlega af því að þeir vita að þeir komast upp með það og enginn hefur nokkurn tíma krafið þá um að sýna einhverja smávægilega samfélagslega ábyrgð. Hvernig væri að fara að gera það?

Ættum við ekki sem alþingismenn, svo ég tali nú ekki um ríkisstjórn Íslands, að gera kröfu til bankanna um að sýna samfélagslega ábyrgð á erfiðum tímum? Er ekki eitthvað að þegar ríkisstjórnin er svo meðvirk með bönkunum að hún lagar lög, eða bankaskatt í þessu tilfelli, að því hvernig bankarnir haga sér og koma fram, í stað þess að krefja þá um að bæta hátterni sitt? Er ábyrgðarleysi þeirra virkilega svo sjálfsagður hlutur að ríkið lagi sig að því í stað þess að krefja bankamenn um að sýna samfélagslega ábyrgð í verki gagnvart fólkinu í landinu, frekar en að blóðmjólka það?

Fyrir 900 milljarða hefði t.d. verið hægt að reisa 10–12 hátæknisjúkrahús.

Skoðum nokkrar staðreyndir: Frá hruni hafa bankarnir hagnast um a.m.k. 960 milljarða. Sjálfsagt verður hagnaður þeirra kominn yfir 1.000 milljarða núna um áramótin eða snemma á næsta ári. Fyrir 900 milljarða hefði t.d. verið hægt að reisa 10–12 hátæknisjúkrahús. Frá því að bankarnir fengu nýjar kennitölur hefur hver einasti einstaklingur í 360.000 manna þjóðfélagi lagt 2,5 milljónir kr. í hagnað bankanna. Arion banki einn og sér greiddi hluthöfum sínum 88 milljarða í arð á þessu ári. Miðað við 360.000 Íslendinga eru það rúmlega 244.000 kr. á hvert einasta mannsbarn. Er virkilega hægt að halda því fram að þeir ráði ekki við bankaskatt upp á 0,376%?

Hver er samfélagsleg ábyrgð banka? Bankar eiga að sjálfsögðu að bera samfélagslega ábyrgð en þeir sýna það ekki á nokkurn hátt í verki og þeir komast bara upp með það átölulaust, því að enginn virðist þora að hrófla við þeim á nokkurn hátt. Heimilin í landinu borga nærri 37% af tekjum sínum í beina skatta og ofan á það bætast svo óbeinir skattar, t.d. í formi virðisaukaskatts, og þau geta ekki talið fram kostnað á móti til að lækka skattbyrði sína.

En fyrirtæki sem hagnast um tugmilljarða á tugmilljarða ofan á hverju einasta ári, og hafa greitt fjárfestum sínum tugi milljarða í arð bara á þessu ári, eiga ekki að þola að greiða skatt sem jafngildir innan við 17% af væntanlegum árshagnaði þeirra án þess að taka það út á viðskiptavinum sínum. Ég trúi því ekki að óreyndu að þingheimur falli fyrir slíku bulli.

Við þurfum að stíga út úr meðvirkni okkar við bankana.

Með réttu ætti bankaskatturinn að vera mun hærri en hér er mælt fyrir, því að þarna, nákvæmlega þarna, eru fyrirtæki sem eru aflögufær framar öðrum. Hagnaður þeirra er frá fólkinu í landinu og á að skila sér aftur til þess. Það er til marks um ótrúlega meðvirkni með bönkunum og fjármálakerfinu að við skulum virkilega þurfa að ræða hvort bankarnir eigi að borga bankaskatt upp á 0,145% eða 0,376% og að við felum okkur á bak við ótta við viðbrögð þeirra og hefndaraðgerðir, verði ekki verið farið að vilja þeirra í einu og öllu.

Við þurfum að stíga út úr meðvirkni okkar við bankana og Alþingi verður að hafa forgöngu um það. Að hækka bankaskattinn í það sem hann áður var væri gott fyrsta skref í þá átt. Fyrirtæki með tugmilljarða í hagnað á hverju ári eiga eins og aðrir, og í raun frekar en aðrir, að leggja sitt til samfélagsins. Svo er það eftirlitsstofnana að fylgjast með því að sá kostnaður verði ekki lagður á fyrirtækin eða heimilin í landinu, hvort sem er í formi vaxta eða annars kostnaðar. — Hættum þessari meðvirkni með fjármagnsöflunum.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: