- Advertisement -

Einn lagði norska ríkið

Bótaþegarnir sem ekki gátu borgað til baka voru dæmdir í fanglesi.

Guðni Ölversson skrifar:

Nav-skandallinn tröllríður húsum í Noregi þessa dagana. Skandallinn fellst í því að nokkur hundruð Norðmenn, sem voru á sjúkrabótum eða atvinnuleysisbótum, höfðu dvalið í lengri eða skemmri tíma erlendis meðan á bótatímanum stóð. Það er bannað samkvæmt norskum lögum og að ég held líka íslenskum. Þess vegna tók Nav, sem er Tryggingastofnun Noregs, til sinna ráða og kærði alla þá brotlegu sem til dómstóla og hafði sigur. Í kjölfarið fór Tryggingastofnunin fram á endurgreiðslu bótanna. Það þýddi að flestir bótaþegarnir, sem ekki gátu borgað til baka, voru dæmdir í fanglesi. Allt upp í nokkra mánuði auk þess sem Nav hirti af þeim alla þann pening sem komist var yfir.

Svo gerist það að athugull bótaþegi rannsakar sjálfur málið og mun betur en Nav hafði gert. Sá komst að því að að norsku lög voru ekki í samræmi við ESB lögin. Hann fór í mál og vann það. Noregur og líka Ísland, eru nefnilega í EES. Þar með gilda lög þess um ferðafrelsi milli landa og þar er enginn greinarmunur gerður á því hvort ferðalangurinn er bótaþegi eða launþegi. Nú er fallinn dómur í Noregi þar sem bótaþegarnir fengu viðurkennt ferðafrelsi sitt. 

Nav þarf að borga til baka.

Nav þarf að borga til baka, með vöxtum bæturnar sem hirtar voru af bótaþegunum auk þess að borga miskabætur til þeirra sem sátu í fanglesi vegna ferðalaga sinna. Dómurinn komst að þeirri niðurstöðu að það eru þrír aðilar sem ekki hafa unnið vinnuna sína í sambandi við þetta mál. Fyrst er það náttúrulega norska Tryggingastofnunin, Nav. Þá tryggingaráðuneytið sem er yfir málaflokknum. Í þriðja lagi dómstólarnir er virtust ekki hafa kynnt sér EES lögin sem ríkisstjórn konungsríkisins hafði samþykkt fyrir margt löngu.

Alltaf ánægjulegt þegar borgararnir leggja það á sig að fara í mál við ríkisstofnanir og hafa sigur. Væri fróðlegt að bera saman álíka mál á Íslandi og hvernig þau hafi endað. Það er algerlega ljóst að bótaþegar eru ekki bundnir í átthagafjötra frekar en venjulegir launþegar, atvinnurekendur eða ráðherrar svo einhverjar viðmiðanir séu teknar.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: