- Advertisement -

Ekki hægt að semja við Landsvirkjun

Vilhjálmur Birgisson skrifar:

Formaður Framsóknarflokksins sagði í ræðu sinni þegar stefnuræða forsætisráðherra var til umræðu á Alþingi í síðustu viku að við yrðum að skapa atvinnu, atvinnu og aftur atvinnu. Fjármálaráðherra hefur sagt að við þurfum kröftuga viðspyrnu til að framleiða meira, skapa fleiri gjaldeyrisskapandi störf.

Það eru mér vitandi allir sammála um að við þurfum að verja störf og skapa fleiri gjaldeyrisskapandi störf, enda eru það gjaldeyrisaflandi greinar sem knýja okkar samfélag áfram. Reyndar sagði Ágúst Ólafur í Samfylkingunni á Sprengisandi í morgun að fjölga þyrfti opinberum störfum gríðarlega, eitt er víst að við vinnum okkur ekki út úr mesta tekjufalli sem ríkissjóður hefur orðið fyrir vegna faraldursins með því að fjölga opinberum störfum.

Við vinnum okkur út úr tekjufallinu með því að efla og styðja við frekari gjaldeyrisskapandi atvinnugreinar.

Þú gætir haft áhuga á þessum
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra og Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir orku- og iðnaðarráðherra.

Mér finnst að stjórnmálamenn verði að svara  því af hverju er ekki gengið í að tryggja að Norðurál geti orðið að ósk sinni að ráðast í stækkun á steypuskála fyrirtækisins, en það liggur fyrir að um 14 milljarða fjárfestingu sé um að ræða og skapi um 100 störf á byggingartímanum, 40 varanleg og önnur eins af afleiddum störfum. Það liggur fyrir að Norðurál getur byrjað á þessum framkvæmdum innan nokkra vikna, eina sem þarf er raforkusamningur til 10 til 20 ára og það virðist ekki vera hægt að semja við Landsvirkjun.

Hvernig er raforkumarkaðurinn um þessar mundir, jú hann er þannig að upp undir 150 MW eru að renna ónotuð út úr kerfinu vegna þess að eftirspurn hefur dregist saman og nægir að nefna að álverið í Straumsvík er keyrt áfram á 85% afköstum og PCC á Bakka er með slökkt á báðum ofnunum og einnig hafa gagnaverin dregið úr raforkukaupum vegna þess að raforkuverð Landsvirkjunar er ekki lengur samkeppnishæft. Það má áætla að vegna þessa samdráttar á sölu á rafmagni sé um 5 milljarðar að tapast á ári.

Ég bara skil ekki af hverju er ekki gengið frá því að Norðurál geti hafið 14 milljarða fjárfestingu og skapað upp undir 100 manns atvinnu á byggingartímanum og 40 varanleg. Meina stjórnvöld kannski ekkert með að skapa þurfi atvinnu og framleiða meira.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: