Íslenskur þingmaður gælir við að Evrópa sameinist gegn kínverskum álverum

Mynd: islendingur.is
Þingmaðurinn, Njáll Trausti Friðbertsson, er sennilega þeirrar skoðunar að Evrópu beri að sameinast gegn kínversku áli. „Árið 2019 voru tæplega 1.500 manns sem störfuðu í álverum. Þá voru stöðugildi verktaka innan álvera 435 og starfsmenn í stóriðjuskóla 105,“ skrifar Njáll Trausti í Moggann í dag.
„Framleiðsla á áli á þó undir högg að sækja um þessar mundir og íslenskur áliðnaður hefur sjaldan staðið frammi fyrir jafn krefjandi markaðsaðstæðum. Má það rekja m.a. til kórónuveirufaraldursins sem endurspeglast í minnkandi eftirspurn og uppsöfnun mikilla birgða. Það er auðvitað ljóst að Ísland verður af miklum gjaldeyristekjum þegar PCC hefur tímabundið hætt starfsemi og stóriðjufyrirtæki eins og ISAL starfar ekki á fullum afköstum. Verkefnið sem við stöndum frammi fyrir hlýtur þar af leiðandi að felast í því að treysta samkeppnisstöðu íslensks áliðnaðar,“ skrifar Njáll Trausti.
„Ég vil því taka undir orð fjármálaráðherra, Bjarna Benediktssonar, um að það er orðið löngu tímabært að fara fram á það í þeirri Evrópusamvinnu sem Ísland er þátttakandi í að staðinn verði vörður um iðnaðarvöru innan Evrópska efnahagssvæðisins, sem augljóslega fer fram með mun umhverfisvænni hætti en sú framleiðsla sem seld er inn á svæðið. Okkar verkefni er að tryggja orkusæknum iðnaði hér á landi sjálfbærar rekstrarforsendur. Ég mun því á nýju löggjafarþingi þegar það kemur saman 1. október nk. leggja fram skýrslubeiðni til utanríkisráðherra þar sem óskað verður umfjöllunar um stöðu íslenskrar álframleiðslu á Íslandi gagnvart EES-samningnum, auk umfjöllunar um framleiðslu og sölu á umhverfisvænni iðnaðarvörum innan evrópska efnahagssvæðisins,“ skrifar þingmaðurinn og boðar, ef rétt er skilið, vilja til viðskiptastríðs við Kínverja.
„Innflutningurinn á Evrópumarkað frá löndum utan markaðarins er tollskyldur upp að 4-7% en sökum aðildar Íslands að EES-svæðinu er Ísland fyrir innan tollamúrana. Á síðasta ári var ársframleiðslan í heiminum rétt yfir 70 milljónir tonna. Yfir helmingur allrar álframleiðslu í heiminum í dag fer fram í Kína. Kínverjar framleiddu rétt rúmlega 35 milljónir tonna árið 2019 eða um 50% heimsframleiðslunnar,“ segir einnig í grein Njáls Trausta Friðbertssonar.