- Advertisement -

Er endalaust hægt að ljúga að fólki?

Hulda Björnsdóttir.

Ég sé mig tilneydda að setjast niður og gera athugasemdir vegna frétta sem mér hafa borist frá Íslandi.

Mér var bent á auglýsingu sem hafði komið í útvarpi og í dag var mér bent á grein í DV

Ástþór Magnússon auglýsir hina dásamlegu skattaparadís í Portúgal og heldur því fram að vegna tvísköttunarsamninga á milli landanna þurfi ekki að greiða skatt á Íslandi af eftirlaunum og ekki heldur í Portúgal.

Maðurinn heldur því fram að:

0% skattur sé fyrir ellilífeyrisþega

“Ellilífeyrisþegar geta flutt skattalegt heimlisfesti til Portúgal og fá þá tekjurnar sínar frá Íslandi greiddar skattfrítt. 0% skattur þökk sé nýjum tvísköttunarsamningi Íslands og Portúgal. Skattasparnaðurinn greiður niður íbúðina”

“Aðrir geta keypt frístundaíbúð frá 61 þús kr. á mánuði. Kaupin greiðst niður með leigu til eftrilaunaþega í 7-9 mánuði á ári. Valhalla finnur leigjendur og sér um allt ferlið. Þú nýtur íbúðarinnar í frístundum

Þetta segir á síðu nuna.is

Í dagblaðinu heldur Ástþór því fram að læknisþjónusta sér frí.

Hann talar einnig um að þessi fínu skattalög hafi verið sett til þess að laða efnaða ellilífeyrisþega að, og hleypa lífi í efnahagslífið á erfiðum tímum.

Ég ætla að gera eftirfarandi athugasemdir við þetta mál allt saman.

Í desember í fyrra var ég að argast í þessu og sendi inn mótmæli og leiðréttingar á síðu Ástþórs.

Í framhaldi af því hringdu í mig 2 frúr, Sigríður og Íris, þann 12.12.2017 og mótmæltu því sem ég var að segja og héldu því fram að portúgalska ríkið væri að svindla á mér.

Ég tók samtalið upp og get birt það ef svo ber undir.

Ég hef búið í Portúgal í 7 og hálft ár.

Ég greiði skatta og skyldur hér í Portúgal þar sem það er búsetuland mitt.

GOLDEN VISA sem Ástþór er að tala um er eingöngu fyrir auðkýfinga og efast ég um að margir á Íslandi komist í þá skó. Reyndar er uppi umræða og áform um að hætta þessu vegna peningaþvættis. GOLDEN VISA var ekki sett upp eingöngu til þess að laða að eftirlaunaþega, það var sett upp fyrir auðkýfinga.

Ég tel að Ástþór þurfi að svara eftirfarandi spurningum:

Ef ég er ellilífeyrisþegi og fæ greitt frá TR hvernig er það framkvæmt svo ég borgi ekki skatta?

Staðreynd: Ég þarf að skila inn afriti af skattskýrslu frá Portúgal til TR á hverju ári. Geri ég það ekki falla bætur niður.

Ef ég fæ tekjur frá Lífeyrissjóði hvar eru reglur um að ég þurfi ekki að borga skatta á Íslandi og ekki í Portúgal af þeim tekjum?

Staðreynd: Þar sem ég er með frískattkort á Íslandi, sem gefið er út af RSK einu sinni á ári og þarf að endurnýja árlega, og það kort er sent til Lífeyrissjóðs míns, tekur sjóðurinn ekki skatt af mér á Íslandi.

Hvernig ber ég mig að hjá RSK til þess að borga ekki skatta á Íslandi ef ég borga ekki heldur skatt í Portúgal.

Staðreynd: Ég þarf að skila inn búsetuvottorði, skattskýrslu frá Portúgal og fleiri pappírum á hverju ári til RSK til þess að fá undanþágu vegna skatta á Íslandi.

Varðandi heilsugæsluna:

Þar sem ég er með heimilisfesti í Portúgal og borga skatta hér þarf ég ekki að borga fyrir aðgerðir á spítala.

Ég borga hins vegar 7 evrur í hvert skipti sem ég fer í viðtal hjá lækni mínum á spítalanum.

Þegar ég fer til heimilislæknis borga ég 4,5 evrur fyrir viðtalið.

Ef ég fer á bráðamóttöku borga ég. Sem dæmi þurfti ég að fá blóðgjöf fyrir 2 árum og greiddi fyrir hana og meðhöndlunina á móttökunni 34 evrur.

Ef ég fer í rannsókn með beiðni frá heimlislækni borga ég nokkrar evrur og fer það eftir því hvað er verið að rannsaka.

A spítalanum borga ég fyrir ambulant rannsókn sem ég fer í árlega tæpar 10 evrur.

Ef ég fer til einkalæknis borga ég 60 evrur fyrir viðtalið.

Ég borga 60 evrur fyrir holter rannsókn utan spítala.

Ég fór í smá augnaðgerð fyrir nokkrum árum og borgaði fyrir hana 15oo evrur, þar sem hún var gerð á einkasjúkrahúsi.

Ef sjúklingur hefur beðið lengur en 6 mánuði eftir aðgerð á opinberum spítala má hann fara á einkarekið sjúkrahús og borgar hann eins og um opinbera spítalann væri að ræða.

Þetta eru aðeins nokkur dæmi um fríu læknisþjónustuna sem Ástþór er að bjóða.

Varðandi lyfjakostnað þá borga ég fyrir öll þau lyf sem ég tek. Ég fæ lyfseðil frá læknum mínum.

Þegar skattur er gerður upp, þá dregst frá partur af heilsugæslu kostnaði og einnig eru reglur um að hægt sé að draga frá VSK, í nokkrum tilfellum, af rekstri heimilis, ef maður tekur nótu og hún er með Fiscal númeri. Þetta fyrirkomulag var sett á fyrir nokkrum árum (2 árum) til þess að reyna að koma í veg fyrir skattsvik.

Þetta eru bara nokkur dæmi um skattaparadísina hér í Portúgal sem Ástþór er að bjóða upp á.

Mér finnst það ábyrgðarhluti að ljúga að fólki eins og Valhalla auglýsingarnar gera.

Svæðið sem Ástþór er að tala um er það aldýrasta í Algarve og búa þar engir venjulegir ellilífeyrisþegar.

Endurskoðandi gerir mína skattskýrslu á hverju ári og ég fullyrði að það eru engar nýjar skattareglur eða nýr tvísköttunarsmaningur við Ísland sem gerir það að verkum að hvergi sé borgaður skattur.

Þeir sem eru að spá í þetta dæmi Ástþórs ættu að tala við TR og RSK.

Staðreyndir er bara sú að þú þarft alltaf að borga skatt einhvers staðar.

Það eru útlendingar hér búsettir sem svíkjast undan skatti en sért þú Íslendingur fylgir TR og RSK því eftir að þú gjaldir keisaranum það sem keisarans er. Ísland er eina landið sem fylgir því almennilega eftir að eftirlaunaþegar greiði skatta.

Það hafa einstaklingar haft samband við mig í gegnum árin og tilkynnt mér hvernig hægt sé að svíkjast undan að greiða skatta hér. Þetta ágæta fólk hefur gúgglað eitt og annað. Það er nú ekki allt alveg kórrétt sem stendur á netinu, eins og lögfræðingur minn segir stundum.

Ég hvet alla til þess að lesa þetta. Það væri líka ekki úr vegi að dreifa þessum pósti eins og hægt er.

Með kveðju,

Hulda Björnsdóttir.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: