- Advertisement -

Er Sjálfstæðisflokkur í stjórnarandstöðu?

„Það er svolítið kaldhæðnislegt að horfa á ríkisstjórnarflokk tala eins og hann sé í stjórnarandstöðu. Í kostaðri auglýsingu Sjálfstæðisflokksins lýsa þingmenn og ráðherrar hans heilbrigðisstefnu sem rímar hvergi við það sem þessi ríkisstjórn hefur gert í heilbrigðismálum og rammar alls ekki inn hvernig háttvirtir þingmenn greiða síðan atkvæði hér í þingsal þegar þessi mál koma fram. Þetta sama fólk talar um mikilvægi þess að styrkja heilbrigðiskerfið með samstarfi ríkisrekinnar þjónustu og einkarekinnar þjónustu. Mér finnst það frábært. En hver er veruleikinn á þessu tímabili?“

Þannig talaði Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir á Alþingi í dag.

„Annað hvert úrræði sjálfstætt starfandi aðila í heilbrigðiskerfinu er í hættu. Við þekkjum framkomu við einkarekna heilsugæslu, sjúkraþjálfara, talmeinafræðinga, Krabbameinsfélagið, sálfræðinga og sjálfstætt starfandi lækna. Þessi ríkisstjórn hefur ekki gert neitt nema þrengja að þessum aðilum eða ekki samið við þá. Og hvað gerist við það, virðulegi forseti? Biðlistar lengjast og fólkinu okkar líður verr. Þjónustan versnar um land allt,“ sagði hún og vék sér næst að eigin flokki:

„Viðreisn er sá flokkur sem hefur staðið vaktina gegn nákvæmlega þessu rugli. Við höfum lagt fram mál um styttingu biðlista, t.d. í mjaðma- og liðskiptaaðgerðir. Og hvað gerir þessi flokkur sem kostar nú auglýsingar um að það verði að laga þetta? Hann kýs gegn málum, hamast á rauða takkanum eða stoppar að málin fái framgang. Þegar þingheimur samþykkti mál okkar Viðreisnar um að sálfræðingar kæmu undir sjúkratryggingakerfið, það yrði hugsað um andlega líðan jafnt á við líkamlega, þá kom fjármálaráðherra daginn eftir og agnúaðist út í málið. Svo þegar við vöruðum eindregið við flutningi á krabbameinsskimunum úr landi, sem þýðir skerta þjónustu við konur og missi þekkingarstarfa, hvað gerði þessi sami flokkur? Ekkert. Ekkert, herra forseti. Það er kaldhæðnislegt að sjá þessar auglýsingar um báknið burt. Þær eru ákveðinn brandari. Báknið er kjurt, það er rígniðurneglt og ósveigjanlegt. Bara ef Sjálfstæðisflokkurinn þekkti nú einhvern í ríkisstjórn.“


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: