- Advertisement -

Eru sem betur fer síðustu fjárlög ríkisstjórnarinnar

Ríkisstjórnin hefur lækkað veiðileyfagjöld um þriðjung og haft í forgang lækkun bankaskatts.

„Það er eins gott að þetta eru síðustu fjárlög þessarar ríkisstjórnar,“ sagði Ágúst Ólafur Ágústsson Samfylkingu á Alþingi.

„Þetta eru síðustu fjárlög þessarar ríkisstjórnar. Förum yfir nokkur atriði. Þessi ríkisstjórn hefur ekki staðið við marggefin loforð til öryrkja um kjarabætur og þetta hafa öryrkjar sjálfir margoft sagt. Þessi ríkisstjórn neitar ítrekað að láta kjarabætur lífskjarasamninganna ná til eldri borgara. Þessi ríkisstjórn skilur eftir sig barnabótakerfi sem er enn þá miklu verra en annars staðar á Norðurlöndunum. Þessi ríkisstjórn var með Landspítalann í neyðarástandi fyrir Covid, en í Covid setur ríkisstjórnin sérstaka aðhaldskröfu á spítala,“ sagði Ágúst Ólafur.

„En hvað hefur þessi ríkisstjórn gert? Ríkisstjórnin hefur lækkað veiðileyfagjöld um þriðjung og haft í forgang lækkun bankaskatts og stimpilgjald af stórútgerðinni. Ríkisstjórnin hefur verið dæmd fyrir mannréttindabrot, fyrir að klúðra heilum dómstól og í sínum síðustu fjárlögum bætir hún bara 0,1% af landsframleiðslu í umhverfismálin og býður upp á fjárfestingarátak þar sem 85% starfanna lenda hjá körlum.“


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: