- Advertisement -

Flóttamannabúðir dómsmálaráðherra koma ekki til greina, segir Bjarkey

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir og Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir.
Himinn og haf virðist vera milli stjórnarflokkanna í málinu.

„Í óundirbúnum fyrirspurnatíma hér í gærmorgun átti dómsmálaráðherra orðastað við háttvirtan þingmann Þorstein Sæmundsson um málefni fólks sem hefur sótt hér um alþjóðlega vernd. Til að gera langa sögu stutta benti ráðherrann á að í löndum í kringum okkur sé sums staðar sá háttur á að fólk sem bíður brottvísunar sé vistað á „afmörkuðum brottvísunarsvæðum“ á meðan það bíður brottvísunar,“ skrifar Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir formaður þingflokks Vinstri grænna.

„Það sem um ræðir er að sjálfsögðu ekkert annað en flóttamannabúðir eða fangelsi og það kemur ekki til greina að setja slíkar á laggirnar af hálfu þingflokks Vinstri grænna. Eins og ráðherrann sagði þyrfti lagabreytingu til að slíkt yrði að raunveruleika og ég leyfi mér að fullyrða að slíkt frumvarp kæmist ekki í gegnum minn þingflokk. Enda er slíkt mál hvergi að finna á þingmálaskrá ráðherrans og ekkert sem hún sagði gefur til kynna að það eigi að hrinda slíku í framkvæmd. Og þó að þingmálaskrár séu oft uppfærðar með tilliti til stöðunnar í samfélaginu myndi afstaða Vinstri grænna ekki breytast ef slíkt mál myndi þar birtast.

Umræðan sem hefur skapast í kjölfarið að um sé að ræða stefnu ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur á sér heldur enga stoð í raunveruleikanum. Enda segir í stjórnarsáttmálanum með leyfi forseta

Þú gætir haft áhuga á þessum

„Aldrei hafa fleiri verið á flótta vegna stríðsátaka, ofsókna og umhverfisvár. Ísland mun leggja sitt af mörkum til lausnar á flóttamannavandanum og taka á móti fleiri flóttamönnum. Mannúðarsjónarmið og alþjóðlegar skuldbindingar verða lögð til grundvallar og áhersla á góða og skilvirka meðhöndlun umsókna um alþjóðlega vernd. Auk þess verður tryggð samfella í þjónustu og aðstoð við þá sem fá slíka vernd. Þverpólitískri þingmannanefnd verður falið að meta framkvæmd útlendingalaga og eftir atvikum endurskoða þau.“

Nú vill svo til að ég sit í téðri þingmannanefnd eins og fulltrúar allra flokka hér á Alþingi. Ég hef áður sagt og segi enn að þar mun ég berjast fyrir því að fólk sem hingað sækir fái sanngjarna, réttláta og mannúðlega málsmeðferð. Ég vona að aðrir þingmenn hér inni og þá sérstaklega þeir sem hafa tjáð sig um þessi orð dómsmálaráðherra muni standa með mér í því.

Hugmyndin er fráleit og þetta kemur ekki til greina.“


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: