- Advertisement -

Gleymdu að finna út hver ætti að rannsaka krabbameinssýnin

„Í byrjun þessa árs fengum við fregnir af því að leghálssýni til rannsóknar á mögulegu krabbameini, tekin úr 2.000 konum, lægju óhreyfð og biðu rannsóknar í pappakössum inni í heilbrigðiskerfinu. 2.000 konur sem töldu sig varðar af íslensku heilbrigðiskerfi mættu samviskusamlega í leghálsskimun en annað kom á daginn. Heilbrigðisyfirvöld undir stjórn hæstv. heilbrigðisráðherra höfðu látið undir höfuð leggjast að ganga frá samningum um það hver skyldi nú rannsaka sýni þessara 2.000 kvenna. Tveggja ára ferli við yfirfærslu á skimunum á brjósta- og leghálskrabbameini hefur ekki gengið betur en svo að það gleymdist að finna út hver ætti að rannsaka sýni sem tekin eru,“ sagði Helga Vala Helgadóttir á Alþingi.

„Frá því að fyrstu fregnir af þessu dæmalausa klúðri bárust eru liðnar nokkrar vikur og hefur hæstvirtur heilbrigðisráðherra sagt eðlilegt að flutningur þjónustunnar frá Krabbameinsfélagi til Landspítala og heilsugæslu taki tíma. Ferlið hófst fyrir tveimur árum. Nú hafa borist fregnir af því að fyrstu 1.000 sýnin hafi sætt rannsókn á einhverri stofu í Danmörku sem íslenskum stjórnvöldum hugnast að semja tímabundið við. Ekki má semja við íslenskt rannsóknarfólk og nýta íslensk tæki Landspítala heldur skal senda sýnin til Danmerkur en þó ekki öll því að á daginn hefur komið að sýnaglösin passa ekki öll hinum dönsku rannsakendum og því þarf fjöldi kvenna að mæta aftur í sýnatöku, eins gleðilegt og það nú er. Niðurstaðan úr þessum 1.000 sýnum sem tekin voru fyrir nokkrum mánuðum sýna að 150 konur þurfa frekari eftirfylgd. Þetta þýðir að frumubreytingar hafa greinst. Ekkert er vitað um hin 1.000 sýnin sem enn bíða í pappakössum heilbrigðiskerfisins.

Af þessum sökum vil ég spyrja hæstvirtan heilbrigðisráðherra og biðja um einlæg og heiðarleg svör. Finnast henni þetta boðleg vinnubrögð? Telur hún það ásættanlegt að standa svona að málum við yfirfærslu lífsnauðsynlegrar heilbrigðisþjónustu? Og loks: Hvers vegna má ekki nýta nýjustu tæki og rannsóknargetu og þekkingu starfsmanna íslenska heilbrigðiskerfisins?“

Það er mjög mikilvægt að freistast ekki til að tala niður opinbera heilbrigðisþjónustu í pólitísku skyni.

„Öryggi og gæði rannsókna hafa verið höfð að leiðarljósi varðandi þessar rannsóknir leghálssýna. Það getur ekki verið sérstakt hagsmunamál hvar sýnin eru greind heldur að þau séu rétt greind. Það er öryggismál. Við flutning þjónustunnar er eðlilegt að einhver tími fari í að taka við nýju hlutverki og koma öllu í sitt horf. En staðan er þannig nákvæmlega núna að stóri samningurinn um greiningu á þessum sýnum var tilbúinn á föstudaginn var og nú hafa 2.000 sýni verið send út sem voru uppsöfnuð hjá Krabbameinsfélagi Íslands. Þau seinni voru send út í dag til Danmerkur. Um 400 sýni sem voru tekin í lok desember og í byrjun janúar verða send út eftir helgi. Það verður haft samband við allar konur sem eiga sýni og þeim tilkynnt niðurstaða sýnatökunnar en það er talið að allt að 15% kvennanna þurfi að fara aftur í leghálssýnatöku sem heilsugæslan býður konunum upp á að kostnaðarlausu,“ sagði Svandís Svavarsdóttir ráðherra.

„Það er, virðulegur forseti, mjög mikilvægt að freistast ekki til að tala niður opinbera heilbrigðisþjónustu í pólitísku skyni. Við eigum nefnilega ómetanlegan auð í því fagfólki sem er til staðar í heilsugæslunni og annars staðar í hinu almenna og opinbera heilbrigðiskerfi um allt land. Þetta kerfi er sameign okkar allra landsmanna, ómetanlegur auður af þekkingu og fagfólki sem er tilbúið að taka við nýju hlutverki en hefur um leið setið undir því að vera úthúðað fyrir sitt starf og af því fólki sem leggur áherslu á það hér að nýta stöðuna í pólitísku skyni.“


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: