- Advertisement -

„Gott og verðugt framtak en framkvæmdin agaleg“

„Báknið kjurt, einkarekstur burt.“

„Fyrir síðasta sumar veitti ríkisstjórnin 500 millj. kr. styrk til sumarnáms fyrir atvinnulausa. Það var Covid-aðgerð, gott og verðugt framtak en framkvæmdin agaleg,“ sagði Hanna Katrín Friðriksson, þingflokksformaður Viðreisnar, á Alþingi í gær.

„Það er auðvitað hlutverk stjórnvalda að útfæra svona aðgerðir þannig að þær lágmarki samkeppnislegan skaða, en þess í stað varð beinlínis til samkeppnisskaðvaldur. Þessir ríkisstjórnarstyrkir fóru m.a. í að niðurgreiða verulega námskeið endurmenntunardeildar háskólanna sem haldin eru í beinni samkeppni við einkarekin fræðslufyrirtæki. Það er galið að stjórnvöld átti sig ekki á þeim skaða sem þau valda atvinnurekstri sem þegar er í nauðvörn vegna Covid-tengdra samkomutakmarkana,“ sagði Hanna Katrín.

„Í lok mars lagði ég inn fyrirspurn til menntamálaráðherra um það hvernig þessar 500 milljónir hefðu nýst, hvernig fjármagnið hefði skipst á milli háskólakennslu til eininga annars vegar og endur- og símenntunarstofnana háskólanna hins vegar. Ég spurði hvort þess hefði verið gætt að ríkisstuðningurinn yrði ekki nýttur til að niðurgreiða þjónustu sem er í beinni samkeppni við einkarekin fræðslufyrirtæki sem bjóða sambærileg námskeið, og hvort ríkisstyrkirnir hefðu verið bornir undir Eftirlitsstofnun EFTA, eins og gert er með aðra ríkisstyrki, t.d. ferðagjöf stjórnvalda. Og talandi um ferðagjöf. Af hverju var sú leið ekki farin? Menntagjöf, þar sem frjálst val viðskiptavina hefði jafnað út samkeppnisáhrif stuðningsins? Ég spurði reyndar ekki að því en ég geri það hér með. Svör hafa ekki borist frá menntamálaráðuneytinu og því er nærtækt að draga þá ályktun að þau liggi ekki fyrir enn. En það stoppar ekki ríkisstjórnina í að fara sömu leið í sumar. Breytingin er sú að styrkurinn er hækkaður úr 500 milljónum í 650 milljónir,“ sagði Hanna Katrín og sagði svo:

„Báknið burt, segja einhverjir, og meintu það kannski einhvern tímann, en aðgerðum stjórnvalda hér væri betur lýst með orðunum: Báknið kjurt, einkarekstur burt.“


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: