- Advertisement -

Guðrún sakar Kristrúnu um gífuryrði

Guðrún Hafsteinsdóttir vék, á Alþingi, orðum sínum að Kristrúnu Heimisdóttir, formanni Samfylkingar. Það var í gærdag sem Guðrún sagði þetta. Lesum:

„Ég vil bjóða velkomna til leiks aftur hér á Alþingi Íslendinga háttvirtan formann Samfylkingarinnar, sem fór mikinn í gífuryrðum í gær um störf ríkisstjórnarinnar og spurði hvað væri eiginlega í gangi,“ sagði Guðrún Hafsteinsdóttir Sjálfstæðisflokki.

„Mér er það bæði ljúft og skylt að upplýsa háttvirtan formann um það sem ríkisstjórnin hefur gert síðustu misseri. Í fastanefndum þingsins eru yfir 50 ríkisstjórnarmál til umfjöllunar, þar með talið frumvarp til að rýmka fyrir veitingu dvalar- og atvinnuleyfa, frumvörp um sameiningar ýmissa stofnana, úrbætur á póstþjónustu og frumvarp til að auðvelda tæknifrjóvganir og notkun kynfrumna og fósturvísa. Þá hafa ráðherrar lagt fram stefnumótandi áætlanir í fjölmörgum málaflokkum, svo sem matvælaframleiðslu, landbúnaði, geðheilbrigðismálum, þekkingarsamfélaginu og síðast en ekki síst ríkisfjármálunum. Í gær lögðu svo formenn og fulltrúar allra flokka fram þingsályktunartillögu um kaup á færanlegu neyðarsjúkrahúsi fyrir Úkraínu.“

Guðrún var ekki hætt:

Háttvirtur formaður velti einnig fyrir sér hvað hefði gerst á Alþingi síðustu vikur og mánuði. Hæstvirtir ráðherrar urðu við beiðnum háttvirtra flokkssystkina formannsins um að ræða sérstaklega um kjaragliðnun og verðbólgu og stýrivaxtahækkanir. Þá hafði háttvirtur formaður tækifæri til að spyrja ráðherra spjörunum úr undir dagskrárliðnum óundirbúnar fyrirspurnir, en kaus að taka ekki þátt í þeim dagskrárlið. Hvernig er hægt að kvarta yfir því að ráðherrar ríkisstjórnarinnar sitji ekki fyrir svörum þegar þeir hinir sömu sitja hér í þingsal og ekki er mætt til leiks til að spyrja þá spurninga? Formaður Samfylkingarinnar lét þau orð falla hér í gær að það væri eins og ríkisstjórnin væri búin að gefast upp. En þá hlýt ég, sem formaður efnahags- og viðskiptanefndar, að beina þeirri spurningu til háttvirts formanns Samfylkingarinnar hvort þau séu kannski búin að gefast upp,“ sagði Guðrún.

Skömmu síðar sagði Jóhann Páll Jóhannsson Samfylkingu:

„Annars vil ég bara geta þess, vegna þess að mér sýnist að háttvirtir þingmenn stjórnarliðsins ætli allir að beina orðum að þingmanni sem er fjarverandi, að háttvirtur þingmaður Kristrún Frostadóttir er fjarverandi einmitt vegna þess að hún er að eiga samskipti við þjóðarleiðtoga í þessum töluðu orðum. Það er nú ástæðan fyrir því að hún er ekki hér. En mér finnst athyglisvert hvernig þingmenn stjórnarliðsins stökkva upp á nef sér og gera einmitt orrahríð að fólki sem getur ekki svarað fyrir sig hér.“


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: