- Advertisement -

Hafa magnað upp frekjuna í SA

Við höfum ekki aðeins búið við auðræði, þar sem hin ríku ráða öllu, heldur þjófræði.

Gunnar Smári skrifar:

Nú er í alvörunni verið að ræða að fella burt kjarasamninga og áunnin réttindi launafólks, jafnt yfir alla línuna, í orði kveðnu til að bjarga störfum, sem hvort sem er eru fallin hjá sumum fyrirtækjum, þar sem enginn rekstur er eftir, en sem mun færa fyrirtækjum sem enga hjálp þurfa (sjávarútvegurinn tryggingafélögin, bankarnir, matvörukeðjurnar o.fl.) 3,5% af launakostnaði í styrk. Það er ekki hægt að ræða þann alvarlega vanda sem við stöndum frammi fyrir út frá svona almennum aðgerðum, ASÍ á að neita öllu slíku.

Aðgerðirnar sem þarf að ráðast í gagnvart fyrirtækjum og rekstri er að styrkja þá starfsemi þarf að halda áfram og styrkjast í gegnum faraldurinn (heilbrigðisþjónusta, félagsleg aðstoð við fólk sem er lokað inn á heimilum sínum, matarframleiðsla, -innflutningur og dreifing o.s.frv.). Það þarf að pakka ferðaþjónustunni saman of geyma undir dúk, taka starfsfólki og tryggja því lífsviðurværi, bjóða eigendum skuldaskjól (en engar nýjar krónur) og fara yfir hvert fyrirtæki með lánardrottnum þess til að meta hvernig eignarhaldi og starfsemi verði háttað í framtíðinni. Slökkva sem mest á fjármálakerfinu svo bankar gangi ekki að litlum og meðalstórum fyrirtækjum með kröfu um afborganir, vexti, leigu og aðra ávöxtun á fé meðan að faraldurinn gengur yfir. Það má ekki gerast að mulningsvél fjármálakerfisins haldi áfram þegar allt raunverulegt atvinnulíf lamast.

Ríkisstjórnin hefur magnað upp frekjuna í SA og Viðskiptaráð, þar sem þeir fyrirtækjaeigendur sem eru í minnstum vanda ráða öllu, eigendur stórútgerða, stórra einokunar- og fákeppnisfyrirtækja, banka og braskfyrirtækja. Þessar frekjur ganga á lagið og krefjast almennra aðgerða í nafni vanda smærri fyrirtækja vitandi að þær munu ekki bjarga þeim heldur aðeins færa hinum stærri meira fé úr almannasjóðum (og frá launafólki) svo þeir geti keypt upp hræin af hinum smærri.

Við höfum ekki aðeins búið við auðræði, þar sem hin ríku ráða öllu, heldur þjófræði, þar sem þau sem sölsað hafa undir sig eignum og auðlindum almennings ráða öllu. Nú er gósentíð þjófanna. Þeir ætla að nota tök sín á ríkisvaldinu, og vangetu almennings til að verjast, til að sölsa undir sig mestu fé og mestum áhrifum. Við lifum þannig tíma.


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: