- Advertisement -

Halldór Ásgrímsson

- hér segir af fyrrverandi formanni Framsóknarflokksins og forsætisráðherra, með meiru.

Halldór Ásgrímsson.
„Halldór var vægast sagt stórkostlegur á fundinum. Hafði svör við öllum spurningum, vissi allt og mátaði alla. Þvílík framganga.“

Ekki löngu fyrir andlát Halldórs Ásgrímssonar, fyrrverandi formanns Framsóknarflokksins og ráðherra, hittumst við tvisvar, af tilviljun. Vorum samferða í flugvél til Portúgals og heim aftur. Í báðum flugstöðum töluðum við nokkuð saman. Hann féllst á að koma til mín í viðtal, en þá var ég með þáttinn Sprengisandur á Bylgjunni.

Þrátt fyrir að samtöl okkar hafi ekki verið löng sagði hann mér samt ýmislegt sem hann hafði ekki talað um áður. Nokkuð sem ég get ekki sagt frá vegna þess að hann er látinn og gaf mér ekki heimild til að greina frá því sem hann sagði.

Ég var að fletta hinum merka vef timarit.is, og sá þar grein sem ég hafði skrifað um Halldór þegar hann lét af formennsku í Framsóknarflokki. Nauðugur viljugur. Þá hafði hann náð því að verða forsætisráðherra, en það fór verr en hann vildi.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Halldór var fæddur á Vopnafirði 8. september 1947, hann lést 18. maí 2015.  Greinin sem hér fylgir birtist í Blaðinu 19. ágúst 2006.

„Fyrst þegar ég sá Halldór Ásgrfmsson eigin augum var hann sjávarútvegsráð- herra og ég sjómaður. Hann kom til Ólafsvíkur til að kynna kvótakerfið á opnum fundi. Þetta var í árdaga kerfisins og flestir, og jafnvel Halldór sjálfur, álitu að ströng stýring fiskveiða væri tímabundinn. Jæja, fundurinn var í gamla félagsheimilinu í Ólafsvík, troðfullt hús og mönnum var mikið niðri fyrir. Halldór var aðalmaður fundarins og með honum voru einhverjir sem eru mér löngu gleymdir.

Fyrirfram hafði ég ekki mikið álit á Halldóri, frekar en ég hafði almennt á stjórnmálamönnum, og einkum og sér í lagi á Framsóknarmönnum. En viti menn, ég hafði bara aldrei séð neitt þessu líkt. Halldór var vægast sagt stórkostlegur á fundinum. Hafði svör við öllum spurningum, vissi allt og mátaði alla. Þvílík framganga. Frá þeim degi hef ég verið nokkuð viss um Halldór, meðal annars að hann hefur ekki alltaf notið sannmælis, honum hefur ekki tekist að sýna sína réttu mynd. Hann er klár og mælskur. Það er bara eitthvað annað í fari hans sem hefur skyggt á hans bestu hliðar.

Ég man að á fundinum forðum spurði Halli i Nýja-Bæ ráðherrann um sína stöðu. Halldór sagði Hringinn hans Halla hafa svo og svo mörg tonn, hafa fiskað svo’og svo mikið síðustu ár og róið svo og svo marga daga. Maðurinn hafði hreinlega svör við öílu. Frábær frammistaða.

Halldór hélt áfram að vera ráðherra og ég varð blaðamaður. Þá kom fyrir að við vorum nærri hvor öðrum í lífinu, ég og Halldór. Ég hef alltaf kunnað vel við Halldór, getur verið skemmtilegur og er sanngjarn. Hann getur orðið fjandanum reiðari, en það er ekki til að skemma neitt, sérstaklega þegar menn eru sæmilega fljótir að jafna sig, sem ég held að Halldór geri alla jafna.

Kann eina litla sögu af Halldóri. Þegar skipstjórafélagið Aldan var íoo ára var ég veislustjóri og hann heiðursgestur. Ræðan hans var fín. Þar sagði hann sögur og ég man eina, ekki rétt, en nóg til að fara með hana. Tveir karlar, einhvers staðar á Austurlandi, voru næstu nágrannar en einlægir óvinir. Annar var að verða sextugur og það vissu allir heimamenn. Svo fór að hinn kom í kaupfélagið og pantaði flaggstöng. Sagði áríðandi að hún yrði komin ákveðinn dag, sem var afmælisdagur nágrannans. Þetta vakti eftirtekt og heimafólkið taldi víst að friður væri með þeim nágrönnum, fyrst svo mikið lá að flagga á afmælisdaginn. En þær vonir urðu að engu, stöngin kom og fór upp, en ástæðan var sú eina I að hafa fína stöng og flagga ekki á stórafmæli ná- grannans. Halldór átti salinn.

Hvernig má það vera að maður sem kann svör við öllu, vinnur heimavinnuna af kostgæfni, slær um sig með góðum sögum, er hnittinn í tilsvörum kveður stjórnmálin með eins litlum sóma og Halldór neyðist til að gera? Það verður rannsakað af hæfu fólki.

Mér er næst að halda að náin kynni Halldórs og Davíðs Oddssonar hafi farið illa með Halldór. Davíð komst upp með allt og var bara einu númeri, ef ekki fleirum, of stór fyrir Halldór. Þega öll spjót stóðu á Davíð átti hann til að þegja í fáa daga og kom svo og sló allt og alla til baka. Einstakur hæfileiki, sem fáum er gefinn, og ekki Halldóri. Hann var kominn í félagsskap sem var honum of erfiður. Halldór var ekki þannig. Lengst af virðist sem hann hafi talið sjálfum sér trú um að hann væri ekkert minni en Davíð og kjarklitlir meðreiðarsveinar sögðu já, þegar þeir héldu að Halldór vildi heyra já og boltinn fór af stað og varð þyngri en Halldór gat borið.

Þegar fór að halla undan fæti hjá Halldóri gerðist það sem hjá honum og svo mörgum öðrum. Hann fór í fár og sá sem er í fári gerir mistök og aftur mistök. Allt þetta varð til þess að staða Halldórs versnaði og hann gerði hver mistökin á eftir öðrum.

Allt þetta hefur orðið til þess að sá sjarmi sem Halldór sýndi á fundinum í Ólafsvík fyrir meira en tuttugu árum er farinn, eða allavega hafa hlaðist á hann býsn mistaka og annars sem má kannski segja að hafa skemmt fyrir Halldóri, hann átti kannski aldrei erindi í leikinn með stóra stráknum Davíð. Var kannski ekki nógu klókur og nógu lipur, en þegar upp er staðið eiga þeir þó eitt sameiginlegt Halldór og Davíð, báðir spiluðu sig út í horn í pólitíkinni og enduðu ekki ferilinn eins flott og þeir hugsanlega gátu.“

Sigurjón M. Egilsson.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: