- Advertisement -

Hamborgari á þrjú þúsund

- formaður Matvís segir veitingamenn spara í mannhaldi og heildsala ekki skila ávinningi af gengi krónunnar. Verð á veitingum sé ekki eðlilegt.

Formaður Matvís, Níels Olgeirsson, er þeirrar skoðunar að veitingamenn hafi margir lagt kapp á að græða sem mest og sem hraðast. Hann tiltekur ekki bara verðlag veitinga, heldur hafi veitingamenn lagt sig fram um að ráða starsfólk sem þeir geti borgað sem minnst í laun. Sniðgengið fagfólk í þeim tilgangi sínum að hagnast sem mest. Þá segir hann veitingamenn glíma við okur annarra.

Morgunblaðið ræðir við Níels. Þar segist hann ekki telja að styrking krónunnar hafi skilað sér að fullu til veitingamanna í formi lægra innkaupsverðs á innfluttum hráefnum. Og hann segir: „Kannski voru stórkaupmenn og kaupmenn of gírugir og lækkuðu ekki verðið til veitingahúsanna.“ Hann telur mögulega hafa gert veitingamönnum ókleift að lækka verðið og það hafi valdið því að verðið sé svimandi hátt fyrir erlenda ferðamenn. „Þegar hamborgarinn er kominn vel á fjórða þúsund er ekki alveg rétt gefið,“ segir Níels.

Í Morgunblaðinu segir Níels segir veitingamenn hafa verið of gráðuga í lengri tíma og sparað við sig þar sem síst skyldi, í starfsmannamálum. „Ég er búinn að berjast fyrir því í þrjátíu ár að auka nýliðun í framreiðslu og matreiðslu. Það hefur ekki verið hlustað á það. Veitingamenn hafa verið of gráðugir. Þeir vildu fá ódýrara vinnuafl, en áttuðu sig ekki á því að þeir þénuðu mikið minna fyrir vikið.“


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: