- Advertisement -

Heilbrigðiskerfinu verður ekki bjargað með ríkisstjórn málamiðlana

Logi Einarsson.

„Í umræðum um stefnuræðu forsætisráðherra við upphaf kjörtímabilsins sagði heilbrigðisráðherra, með leyfi forseta: „Við erum að bjarga heilbrigðiskerfinu, menntakerfinu og samgöngunum frá langvinnri vanrækslu og ásælni peningaaflanna í landinu …“,“ sagði Logi Einarsson á Alþingi í gær.

„Skoðum þá aðeins stöðu heilbrigðismálanna í lok kjörtímabilsins. Að sögn formanns Félags bráðalækna hefur aldrei verið jafn alvarleg undirmönnun á bráðadeild Landspítalans og stefnir í í sumar og yfirgnæfandi líkur á alvarlegum atvikum, jafnvel mannslátum, á deildinni. Hjúkrunarheimili víða um landið stefna í þrot vegna áralangrar vanfjármögnunar ríkisins og íslensk ungmenni fá ekki nauðsynlega geðheilbrigðisþjónustu. Þá er enginn geðlæknir í fastri stöðu úti á landsbyggðinni. Þetta eru verk ríkisstjórnarinnar,“ sagði hann.

„Nú í kjölfar heimsfaraldurs ættum við einmitt að verðlauna ósérhlífni heilbrigðisstarfsfólks og samstöðu almennings með því að fjármagna íslenskt heilbrigðiskerfi með fullnægjandi hætti. Almenningur hefur kallað eftir því í mörg ár,“ sagði Logi.

Þú gætir haft áhuga á þessum

„Af þessu, herra forseti, er aðeins hægt að draga eina ályktun og hana allt aðra en heilbrigðisráðherra gerði í upphafi kjörtímabilsins. Heilbrigðiskerfinu hér verður ekki bjargað með ríkisstjórn málamiðlana, kyrrstöðu, hvað þá niðurskurðar. Það getur hins vegar vel verið að þetta óvenjulega stjórnarmynstur íhaldsflokkanna hafi hentað til að kæla stöðuna eftir skandala síðustu stjórna en þessir flokkar munu ekki finna þann samhljóm sem þarf til að ráðast við risastórar áskoranir framtíðar. Við höfum meira að segja séð fjölda framfaramála stranda uppi á sjálfu ríkisstjórnarborðinu þrátt fyrir líklegan meiri hluta í þingsal. Ég nefni afglæpavæðingu, rammaáætlun, hálendisþjóðgarð og auðvitað almennilegt auðlindaákvæði.“


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: