- Advertisement -

HEIMSMEISTARA Í ÞJÓFRÆÐI

Stjórnlaus skuldasöfnun íslenskra einkafyrirtækja.

Gunnar Smári skrifar:

Gunnar Smári.

Skuldir íslenskra heimila, sem hlutfall af landsframleiðslu, eru í hærri kantinum í heiminum. Samkvæmt Alþjóðagjaldeyrissjóðnum skulda íslensk heimili 83% af landsframleiðslu á meðan að meðaltal hinna Norðurlandanna er 98%; hlutfallið er hæst í Danmörku, 134%, en þar hefur geisað húsnæðisbóla árum saman, en lægst í Finnlandi, 72%. Ísland er næst lægst Norðurlandanna; skuldir heimilanna í Svíþjóð eru 87% af landsframleiðslu og 101% í Noregi, þar sem er rekin séreignarstefna á húsnæðismarkaði eins og hérlendis.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Ríkisskuldir eru tiltölulega lágar á Íslandi í samanburði við lönd í okkar heimshluta, 52% af landsframleiðslu samkvæmt Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Meðaltal hinna Norðurlandanna er 49%; Norðmenn skulda minnst en Finnar mest, Íslendingar næst mest.

Samkvæmt Alþjóðagjaldeyrissjóðnum eru skuldir einkafyrirtækja, fyrir utan fjármálafyrirtæki, 243% af landsframleiðslu á Íslandi, næstum tvöfalt meira en samanlagðar ríkisskuldir og skuldir heimilanna.

Þegar kemur að skuldum einkafyrirtækja sker Ísland sig hins vegar frá öðrum löndum. Skuldir einkafyrirtækja eru aðeins hærri í þremur löndum; Í Lúxemborg, Írlandi og Kýpur en öll þessi lönd hýsa alþjóðleg fyrirtæki svo skuldir þeirra eru miklar í samanburði við landsframleiðslu landanna. Þetta á ekki við um Ísland. Það væri geðveikur maður sem myndi skrá alþjóðlegt fyrirtæki á Íslandi, þrátt fyrir að hér séu skatta lágir og eftirlit lítið sem ekkert.

Samkvæmt Alþjóðagjaldeyrissjóðnum eru skuldir einkafyrirtækja, fyrir utan fjármálafyrirtæki, 243% af landsframleiðslu á Íslandi, næstum tvöfalt meira en samanlagðar ríkisskuldir og skuldir heimilanna. Meðaltal skulda einkafyrirtækja á hinum Norðurlöndunum er 161% af landsframleiðslu; fyrirtæki í Danmörku skulda minnst, 146% af landsframleiðslu, en fyrirtækin í Noregi koma næst á eftir íslensku fyrirtækjunum, skulda 190% af landsframleiðslu.

Árið 2008 námu skuldir einkafyrirtækja á Íslandi, fyrir utan fjármálafyrirtæki, 624% af landsframleiðslu. Það var heimsmet, sem vonandi aldrei verður slegið. Það ár kom Lúxemborg næst á eftir Íslandi með skuldir einkafyrirtækja upp á 322% af landsframleiðslu. Þessi skuldasöfnun einkafyrirtækja var megindrifkraftur bólunnar sem gat af sér Hrunið. Hrunið var hrun yfirskuldsettra einkafyrirtækja.

Hrun og kreppur innan kapítalismans má nær undantekningarlaust rekja til útlánaþenslu sem veldur eignabólu, yfirskuldsetningar og sífellt hæpnari lánveitinga til vafasamari verkefna sem síðan falla; valda gjaldþrotum fyrirtækja, uppsögnum starfsfólks, samdrætti, atvinnuleysi og öðrum efnahagshörmungum sem almenningur ber hitann og þungann af. Stundum er eignabóla í íbúðarhúsnæði kveikjan að bólu og síðan hruni, en oftast er um að ræða útlán til einkafyrirtækja og vafasamra fjárfestinga þeirra.

Á meðan skuldir heimilanna jukust um 2,4 falt þá jukust skuldir einkafyrirtækja 7,5 falt. Það voru því ekki heimilin sem keyrðu íslenskt efnahagslíf í kaf með offjárfestingu heldur einkafyrirtækin.

Skuldir heimilanna á Íslandi voru 45% árið 1990, 87% árið 2000 og 107% árið 2008. Þessi skuldasöfnun heimilanna á nýfrjálshyggjuárunum fyrir Hrun veikti efnahagsástandið og skapaði hættu. Skuldir einkafyrirtækja, fyrir utan fjármálafyrirtæki, voru 70% af landsframleiðslu árið 1990, 113% árið 2000 og 524% árið 2008. Á meðan skuldir heimilanna jukust um 2,4 falt þá jukust skuldir einkafyrirtækja 7,5 falt. Það voru því ekki heimilin sem keyrðu íslenskt efnahagslíf í kaf með offjárfestingu heldur einkafyrirtækin. Og hér eru bankar og fjármálafyrirtæki ekki talin með. Skuldasöfnun annarra einkafyrirtækja hefðu fellt íslenskt efnahagslíf án hruns bankanna. Það er hins vegar spurning hvort fyrirtækin hefðu fengið allt þetta lánsfé annars staðar en í illa reknum íslenskum bönkum í eigu fávita.

En hvað varð um þessa peninga? Ekki jukust umsvif, fjárfestingar eða framleiðsla íslenskra einkafyrirtækja 7,5 falt frá 1990 til 2008? Nei, landsframleiðsla jókst á þessu tímabili 1,9 falt en skuldirnar þess meira, þar sem við höfum hér rætt um skuldir sem hlutfall af hækkandi landsframleiðslu.

Árið 1990 var landsframleiðsla um 1250 milljarðar króna á núvirði og skuldir einkafyrirtækja um 875 milljarðar króna. Árið 2008 var landsframleiðslan orðin 2405 milljarðar á núvirði en þá voru skuldir einkafyrirtækja orðnar 12.600 milljarðar króna. Í fyrra var landsframleiðslan um 2905 milljarðar króna á núvirði og skuldir einkafyrirtækja um 4880 milljarðar króna.

Sagan er þá þessi: Frá 1990 til 2008 jukust skuldir einkafyrirtækja um 10.900 milljarða króna umfram breytingar á landsframleiðslu; þetta er sú upphæð sem einkafyrirtæki tóku að láni umfram vöxt hagkerfisins. Og þrátt fyrir stórkostlegar niðurfellingar lána eftir Hrun skulda einkafyrirtæki í dag 2.850 milljarða króna umfram það sem var við upphaf nýfrjálshyggjutímans að teknu tilliti til aukningar landsframleiðslu.

Hvað varð um þessa peninga úr því að þeir leiddu ekki til aukinna fjárfestinga sem leiddu aukinnar framleiðslu og þar með vöxt landsframleiðslu?

Og aftur er spurt: Hvað varð um þessa peninga úr því að þeir leiddu ekki til aukinna fjárfestinga sem leiddu aukinnar framleiðslu og þar með vöxt landsframleiðslu? Auðvitað glataðist hluti þessara lána í fjárfestingaævintýrum sem fóru á hausinn en stór hluti þessarar skuldsetningar fór til að fjármagna stórkostlegan fjármagnstilflutning út úr hagkerfinu; fyrirtæki voru keypt á sífellt hærra verði og kaupin fjármögnuð með skuldsetningu eignarhaldsfélaga og síðan seld aftur og keypt á ný. Að stærstu leyti fór þessi aukna skuldsetning til að greiða eigendum fyrirtækja út söluhagnað og arð; þetta eru í raun sporin eftir þjófanna sem eru að ræna hagkerfið innan frá.

Óvenjuhá skuldsetning íslenskra einkafyrirtækja sýnir hversu langt þjófræðið, óligarkisminn, hefur gengið á Íslandi. Í raun hefur allt hagkerfið og grunnkerfi ríkisins, ekki síst skattkerfið, verið aðlagað að þörfum þjófanna, óligarkana, sem líta ekki á fyrirtæki sem tæki sem framleiða vöru eða veita þjónustu heldur fyrst og fremst sem tæki til að skuldsetja til að kaupa önnur fyrirtæki sem síðan eru seld áfram til enn skuldsettari fyrirtækja. Fyrirtæki þjófanna eru ekkert í líkingu við almennar hugmyndir fólks um fyrirtæki eða tilgang þeirra: heldur röð fyrirtækja sem er hönnuð til að soga til fjármagn og alls ekki til að framleiða eitt né neitt. Í gegnum þessa fjármálavæðingu efnahagslífsins tókst þjófunum að soga til sín um 10 þúsund milljarða fyrir Hrun og fjársogið heldur áfram.

Ekkert land getur borið einkafyrirtæki sem skulda meira en landsframleiðslu.

Þetta er ekki aðeins siðlaust og heimskt; að aðlaga samfélag að þörfum stórþjófa, heldur veldur því að með reglulegu millibili hrynur spilaborgin yfir almenning. Ekkert land getur borið einkafyrirtæki sem skulda meira en landsframleiðslu. Slíkt veldur reglulegum kreppum og hruni sem kosta almenning gríðarlega fjármuni og óþarfa þjáningu. En að halda uppi einkafyrirtækjum sem skulda margfalda landsframleiðslu er fráleit glæframennska, ávísun á regluleg og hryllileg hrun sem færa hörmungar yfir almenning í þeim eina tilgangi að örfáir einstaklingar geti haldið áfram að ræna samfélagið innan frá.

Ég byrjaði á að benda á skuldir heimilanna og ríkisins. Í samanburði við önnur lönd er augljóst að Íslendingar hafa ekki farið fram úr sér varðandi skuldsetningu heimila eða ríkissjóðs; þeir hafa farið varlega varðandi uppbyggingu húsnæðis og velferðar og innviða. Jafnvel of varlega, gæti einhver sagt. Samt er linnulaust rætt um þetta tvennt eins og mikinn háska, skuldasöfnun almennings og ríkissjóðs, en næstum aldrei minnst á mestu efnahagsvá sem þjóðin býr við; stjórnlausa skuldsetningu einkafyrirtækja til að fjármagna þjófnað óligarkana.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: