- Advertisement -

Alþingi: Hryðjuverkaríkisstjórn í Rússlandi

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir:

…hvernig megi draga Rússland, leiðtoga í Rússlandi og stríðsglæpamenn…

„Ályktun Evrópuráðsþingsins um viðbrögð við aukinni stigmögnun árásarstríðs Rússlands gegn Úkraínu var samþykkt samhljóða af Evrópuráðsþinginu í Strassborg síðastliðinn fimmtudag,“ sagði Þórhildur Sunna Ævarsdóttir á Alþingi.

„Þessi ályktun er merkileg og söguleg fyrir margar sakir. Þar má m.a. finna ákall um að aðildarríki Evrópuráðsins lýsi því yfir að ríkisstjórn Rússlands sé hryðjuverkaríkisstjórn. Þar má líka finna ákall um leiðtogafund aðildarríkja Evrópuráðsins. Hann væri þá fjórði sinnar tegundar, verði af honum, og þar sem Ísland er að fara að taka við formennsku í ráðherraráði Evrópuráðsins — þetta tungutak hjálpar okkur nú ekki að gera okkur skiljanleg — má gera ráð fyrir því að mögulega verði þessi leiðtogafundur haldinn á Íslandi. Það væri líka söguleg stund. Þar sem var mikilvægt í þessari skýrslu var að þar var kallað eftir því að þessi leiðtogafundur, sem er mjög skýrt ákall eftir innan Evrópuráðsins, fjalli að stóru leyti um hvernig megi draga Rússland, leiðtoga í Rússlandi og stríðsglæpamenn, þá sem hafa staðið að stríðsglæpum, glæpum gegn mannkyni í Úkraínu, til ábyrgðar; að þetta taki mikið pláss í dagskrá leiðtogafundarins. Og hann gæti, eins og ég segi, orðið hér á Íslandi. Sömuleiðis er ákall eftir því að stuðningur við Úkraínu og hvernig megi best styðja við Úkraínu taki mikið pláss á þessum fundi. Ég samþykkti þetta ásamt öllu Evrópuráðsþinginu samhljóða. Þar með er það orðið ákall til allra aðildarríkjanna að setja þetta á dagskrá.

Ég vil spyrja hæstvirtan ráðherra, þar sem hún mun gegna formennsku í ráðherraráðinu, hvort hún taki undir að það sé mikilvægt að þetta fái mikið pláss á dagskránni og hvernig hún sæi það fyrir sér, hvort sem leiðtogafundurinn verður hér á landi eða ekki, og hvort hún muni beita sér fyrir því að þetta verði fyrir fyrirferðarmikið á leiðtogafundinum.“

Þú gætir haft áhuga á þessum

Þórdís K.R. Gylfadóttir:

Vissulega hafa leiðtogar leyft sér að tala á þennan hátt, þ.e. að segja upphátt að Rússlandsstjórn stundi hryðjuverk og sé hryðjuverkastjórn…

„Ég vil þakka háttvirtum þingmanni fyrirspurnina og fagna hverju tækifæri hér sem við fáum til að ræða þessi alvarlegu mál. Ég fylgdist með vinnu Evrópuþingsins og það er auðvitað stórfrétt að þetta er fyrsta alþjóðlega samkoman sem ályktar með þessum hætti. Vissulega hafa leiðtogar leyft sér að tala á þennan hátt, þ.e. að segja upphátt að Rússlandsstjórn stundi hryðjuverk og sé hryðjuverkastjórn, en það er stórt skref af Evrópuþinginu að álykta eins og það gerði. Ég hef gert mitt allra besta til að tala eins skýrt og mögulegt er fyrir hönd íslenskra stjórnvalda og almennings á Íslandi sem ég finn ekki fyrir öðru en að sé sammála okkur, á svona sögulegum stundum þar sem ekki liggur fyrir hversu hræðilegt ástandið muni verða áður en það batnar, að fullvalda og sjálfstætt ríki noti rödd sína til að tala hátt og skýrt,“ sagði Þórdís K.R. Gylfadóttir utanríkisráðherra.

„Ég vona að það verði af leiðtogafundinum hérlendis, sem væri þá sá stærsti sinnar tegundar sem haldinn hefur verið á Íslandi. Við munum nota okkar formennsku, sem við tökum auðvitað við á mjög sögulegum tímum, eins vel og við getum og munum tala skýrt og leggja skýra áherslu á það sem háttvirtur þingmaður nefndi. Það er áhugavert að kannski í marga áratugi hefur ekki verið jafn augljóst og nú hvað er þess virði að berjast fyrir. Þau gildi sem íslenskt samfélag er sammála um að séu þess virði að berjast fyrir höfum við kannski tekið sem gefnum hlut, en nú liggur fyrir að það er vegið að þessum gildum. Reynt er að breyta heimsmyndinni og hvernig við tökum ákvarðanir, hvort alþjóðakerfið er leiðin til þess að taka erfiðar ákvarðanir eða ekki þegar upp koma krísur eða stríð. Ég heiti því að nýta þessa sex mánuði eins vel og við mögulega getum,“ sagði ráðherrann.

Þetta er talinn líklegasti möguleikinn á því að handsama Pútín Rússlandsforseta…

„Ég þakka hæstvirtum ráðherra fyrir svarið. Það má vera aðeins nákvæmari varðandi það sem Úkraínuforseti, úkraínska ríkisstjórnin og meira að segja úkraínska landsdeildin í Evrópuráðsþinginu hefur verið að kalla eftir þegar kemur að því að draga Rússland og rússneska aðila til ábyrgðar. Meðal annars hefur verið nefnt að þjóðir taki sig saman og stofni sérstakan dómstól sem hefur það hlutverk að rétta einungis yfir glæpum gegn friði eins og að skipuleggja og hrinda af stað þessu árásarstríði. Þetta er talinn líklegasti möguleikinn á því að handsama Pútín Rússlandsforseta á einhvern hátt. Á hinn bóginn hefur verið kallað eftir því að setja á fót sérstakan dómstól sem getur í raun réttað um skaðabætur fyrir það gríðarlega tjón sem hefur orðið vegna stríðsins. Þetta hafa verið tvö megináhersluatriði úkraínskra leiðtoga í sínu alþjóðastarfi og ég velti því fyrir mér hvort hæstvirtur ráðherra styðji þessar hugmyndir og muni beita sér fyrir því að þær verði að veruleika í sinni formennskutíð í ráðherraráðinu,“ sagði Þórhildur Sunna.

„Já, við munum gera það,“ svaraði Þórdís. „Í fyrsta lagi finnst mér mjög mikilvægt að við beitum í raun öllum tiltækum ráðum til að draga Rússland til ábyrgðar. Við höfum ákveðið kerfi núna sem er mikilvægt að nota, en ef atriði eru til staðar þar sem ekkert kerfi getur dregið fólk til ábyrgðar þá þarf einfaldlega að búa það til. Það þarf að hafa hraðar hendur svo það taki ekki marga áratugi því að það er ekki nóg að draga þá til ábyrgðar sem framkvæma stríðsglæpi í Úkraínu heldur líka þá sem fyrirskipa glæpina. Verið er að glíma við þessi mismunandi kerfi, við þurfum að styðja vel við þau kerfi sem þegar eru til og styðja síðan og aðstoða við að búa til það sem þarf í tilviki rússneskra stjórnvalda sem fremja stríðsglæpi og brjóta alþjóðalög í Úkraínu.“


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: