- Advertisement -

Því eru stelpurnar hunsaðar?

Það gengur ekki lengur að hálf þjóðin sé að tala um þetta mál án þess að á þær sé yrt eða þeim boðið að borðinu.

Gunnar Smári skrifar:

Ég er mikill aðdáandi stelpnanna í ÍR sem gerðu uppreisn gegn yfirvaldinu fyrir tæpum tveimur árum og finnst heimildarmyndin Hækkum rána fjalla um baráttu þeirra, þótt hún fari fram á körfuboltavelli þar sem Brynjar Karl er þjálfari.

En myndin fjallar ekki síður um hvernig samfélagið bregst við uppreisn og mótmælum hópa sem hafa ekki haft sterka rödd, jafnvel enga. Sú staðreynd að myndin endi á því að þessar hetjur, sem stelpurnar sannarlega eru, séu skammaðar, svívirtar, hunsaðar og þaggaðar, þjálfarinn rekinn og hópurinn leystur upp, er óendanlega sorglegt.

Reiðilestur konunnar með Gucci töskuna í búningsklefanum…

Reiðilestur konunnar með Gucci töskuna í búningsklefanum undir lokin er mesta horrorsena íslenskrar kvikmyndasögu, stelpurnar að brotna saman undan svívirðingum, grátandi. Það hvolfist yfir mann lamandi tilfinning yfir því hvað samfélagið getur verið grimmt og ljótt.

Og það virðist eiga að endurtaka þetta allt, nú þegar myndin hefur verið sýnd. Í stað þess að gefa stelpunum pláss, viðurkenna baráttu þeirra og taka ofan fyrir þeim, virðist stór hluti samfélagsins ætla að réttlæta framkomu sína gagnvart stelpunum fyrir tveimur árum með því að lýsa yfir hneykslun á þjálfunaraðferðum Brynjars Karls og halda áfram hunsun sinni gagnvart stelpunum. Þessar þjálfunaraðferðir trufluðu fáa árin fyrir Íslandsmótið fyrir tæpum tveimur árum. Það var ekki fyrr en stelpurnar risu upp gegn yfirvaldinu að hluti foreldranna, stjórn ÍR, forráðamenn KKÍ og fólk tengt íþróttahreyfingunni hafnaði þessum aðferðum og gerði þær að aðalatriði þessa máls. Tilefnið var hins vegar uppreisn stelpnanna gegn yfirvaldinu. Og foreldravaldinu með því að hafa skipulagt þetta án leyfis að heiman.

Stelpurnar, sem létu medalíurnar falla, eru hetjur. Það sem þær gerðu skiptir máli í kvennabaráttu og í baráttu barna fyrir að á þau sé hlustað, að hver sem geti ekki tekið að sér tala fyrir þau. Þetta er mikilvægur atburður í upprisu hinna kúguðu og verður vonandi fyrirmynd af uppreisn annarra. Þessi atburður mun lifa í minningu samfélagsins. Við erum að ganga í gegnum mikla umbrotstíma þar sem fjöldi hópa mun krefjast pláss, áheyrnar og að á þá sé hlustað. Við ættum að hugsa um hvernig við ætlum að ganga frá minningunni um uppreisn stelpanna. Við ættum að reisa styttur af stelpunum í stað þess að skamma þær og hunsa. Ekki bara þeirra vegna heldur okkar vegna, vegna samfélagsins og þeirra breytinga sem það verður að ganga í gegnum.

…þá krefst ég þess að rætt verði við stelpurnar í næsta Kastljósi.

Viðbrögð samfélagsins við mótmælum stelpnanna er til svo fullkominnar skammar að ég er við það að missa alla trú á mannfélaginu. Það virðist enginn vera svo fjarri þessu mála og þekkja það lítið, að sá þykist ekki vita betur en stelpurnar hvað þeim gekk til, hvernig þeim leið og hverju þær vildu ná fram. Ótrúlegur fjöldi fólk er tilbúinn að fullyrða að stelpurnar hafi í raun ekki verið með sjálfum sér, heldur verið leikbrúður þjálfarans; uppstilling sem reynt er að þröngva upp á allar baráttukonur, að þær séu leiksoppar einhvers karlsins.

Þau sem opna á stelpurnar hafi kannski haft eitthvað til síns máls, segja að þær hafi klikkað á framkvæmdinni; að vettvangur mótmælanna hafi verið rangur, tíminn rangur, aðferðin röng. Þannig var þetta fyrir tveimur árum og þessi viðbrögð magnast nú upp eftir sýningu myndarinnar. En þetta er fullkomlega klassísk viðbrögð samfélags sem ætíð reynir að bæla niður upprisu hinna kúguðu.

Með allri virðingu fyrir Brynjari Karli, sem örugglega hefur margt og mikið að segja um þjálfun og starf með ungmennum, og sem vissulega á heiður skilið fyrir að hafa staðið með stelpunum, þá krefst ég þess að rætt verði við stelpurnar í næsta Kastljósi. Þær eiga að fá að eiga sín mótmæli sjálfar og það er kominn tími til að á þær sé hlustað. Það gengur ekki lengur að hálf þjóðin sé að tala um þetta mál án þess að á þær sé yrt eða þeim boðið að borðinu.

Hvað veldur því að þær eru hunsaðar? Er það vegna þess að þær eru kvenkyns? Eða vegna þess að þær eru börn? Eða er það að við eigum að trúa að einhver karlinn tali fyrir þær, þjálfari eða prófessor í félagsfræði.


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: