- Advertisement -

Jón Steinar mærir Arnar Þór

„Ég tek ofan hatt minn fyrir þessum sanna Íslendingi sem jafnan er reiðubúinn til að ganga fram fyrir skjöldu til varðveislu á grunnréttindum okkar Íslendinga.“

Jón Steinar Gunnlaugsson.

„Einn er sá maður úr hópi lögfræðinga sem reynist óþreytandi við að verja fullveldi Íslands. Sá heitir Arnar Þór Jónsson. Hann birtir nú í vikunni tvær greinar í Morgunblaðinu, þar sem hann sýnir fram á að nýgenginn dómur Hæstaréttar Noregs, sem féllst á takmarkað framsal þar í landi á fullveldi Noregs til evrópska stofnana, hafi ekki minnstu þýðingu fyrir íslenskan rétt. Rökstyður Arnar Þór mál sitt með markvissum hætti sem ekki verður á móti mælt,“ skrifar Jón Steinar Gunnlaugsson.

„Tvö atriði standa upp úr í rökfærslu Arnars Þórs. Í fyrsta lagi er að finna í stjórnarskrá Noregs ákvæði sem leyfir takmarkað framsal fullveldis landsins til evrópskra stofnana. Slíkt ákvæði er ekki að finna í stjórnarskrá okkar Íslendinga. Auk þess má segja að niðurstaðan í Noregi hafi byggst á vafasamri túlkun stjórnarskrárinnar þar í landi. Í þessu tilviki hafi rétturinn gengið lengra en hann hafði heimild til að réttum lögum. Þess utan skiptir túlkun í Noregi ekki nokkru máli hér á landi, þar sem við erum fullvalda og sækjum því ekki lögfræðilegar úrlausnir til annarra þjóða þó að tengdar séu okkur. Her á landi gildir hin íslenska stjórnarskrá en ekki sú norska,“ skrifar Jón Steinar.

„Íslenskir Evrópusinnar hafa vísað til þessa norska dóms með andagt til stuðnings málflutningi sínum um heimildina til að framselja fullveldi okkar Íslendinga. Arnar Þór sýnir fram á að slík heimild er ekki til staðar hér á landi. Hann á mikinn heiður skilinn fyrir baráttu sína fyrir fullveldi Íslands, sem ræðst ekki af þessum norska dómi. Ég tek ofan hatt minn fyrir þessum sanna Íslendingi sem jafnan er reiðubúinn til að ganga fram fyrir skjöldu til varðveislu á grunnréttindum okkar Íslendinga. Takk Arnar Þór!“


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: