- Advertisement -

Kristín saup hveljur yfir orðum Diljár Mist

Hún sagði í umræðum um hvalveiðar (fari þær norður og niður) að Íslendingar hefðu um aldir stundað sjálfbærar veiðar. Ég saup hveljur.

Kristín Ástgeirsdóttir.

Kristín Ástgeirsdóttir, dóttir Ása í Bæ, skrifaði fínan pistil í tilefni sjómannadagsins:

„Kæru vinir. Í mínu ungdæmi í Eyjum var sjómannadagurinn aðaldagur ársins. Það var mikið um dýrðir, kappróður í höfninni, koddaslagur, skemmtun í Samkomuhúsinu og ball um kvöldið. Fiskveiðar voru auðvitað undirstaða lífsins og bátarnir margir af öllum stærðum og gerðum. Nú er öldin önnur, skipin gríðarstór og eru lengi á veiðum. Litlu bátarnir stunda strandveiðar en ekki í Eyjum svo ég viti. Fiskvinnsla í landi er ekki svipur hjá sjón en sem betur fer lifir sjómannadagurinn.

En ástæða þess að ég sting niður penna (eða þannig) á þessum sjómannadegi eru orð ungrar þingkonu Sjálfstæðisflokksins í Vikulokunum (á RÚV) í gær. Hún sagði í umræðum um hvalveiðar (fari þær norður og niður) að Íslendingar hefðu um aldir stundað sjálfbærar veiðar. Ég saup hveljur.

Lúðuveiðar eru bannaðar.

Íslendingar veiddu íslensk-norska síldarstofninn nánast upp til agna. Hann var búinn 1968 með þeim afleiðingum að hér varð efnahagshrun (eitt af mörgum). Þessi síldarstofn hefur ekki enn jafnað sig. Á níunda áratugnum var ástand fiskistofna orðið þannig að fólk hafði miklar áhyggjur af ofveiði. Kvótakerfi var komið á þar sem markmiðið var að koma þorskstofninum og öðrum stofnum í gott horf. Það hefur ekki tekist enn. Lúðuveiðar eru bannaðar. Humarstofninn er í lágmarki o.s.frv.

Sem sagt græðgin réði ríkjum með mjög alvarlegum afleiðingum. Fiskveiðum hefur verið stýrt í áratugi en enn þarf að hafa varann á og markmið hafa ekki náðst. Kvótinn var afhentur auðmönnum sem græða á tá og fingri en það er önnur saga. Græðgin fær nú að blómstra í ferðamannaiðnaðinum en það líður að því að þar verði komið á kvótum ef ekki á illa að fara.

Gleðilegan sjómannadag.“


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: