- Advertisement -

Kvótahöfum hefur fækkað um 564

Tíu stærstu útgerðirnar fara með meira en helming kvótans.

„Frá því að reglur um hámarksaflahlutdeild voru fyrst lögfestar hefur orðið samþjöppun á aflahlutdeildum og fara nú tíu stærstu útgerðarfélög landsins með meira en helming aflahlutdeilda. Samhliða þeirri þróun hefur aðilum í sjávarútvegi fækkað ört. Útgerðir sem réðu yfir aflahlutdeildum voru 946 í upphafi fiskveiðiársins 2005/2006 en þeim hafði fækkað niður í 382 árið 2019,“ sagði Oddný Harðardóttir þegar hún mælti fyrir eigin frumvarpi um stjórn fiskveiða.

„Tíu stærstu útgerðirnar fara með meira en helming kvótans og 20 stærstu meira en 70% kvótans. Ofan á þetta bætist svo eignarhald þessara útgerðarrisa í öðrum útgerðum. Fyrir rúmum 20 árum voru lagagreinar samþykktar sérstaklega til að vinna gegn samþjöppun aflaheimilda sem talin var skaðleg, ekki síst út af mikilvægi fiskveiða fyrir íslenskan þjóðarbúskap. Of sterk yfirráð fárra aðila yfir fiskveiðiauðlindinni þýddi meiri völd þeirra í þjóðfélaginu en heilbrigt væri og staða þeirra yrði of sterk gagnvart stjórnvöldum; samþjöppun kæmi í veg fyrir samkeppni og hamlaði nauðsynlegri endurnýjun. Þá geti samþjöppun beinlínis unnið gegn þjóðarhag, sérstaklega ef viðkomandi standa sig ekki í því að skapa sem mest verðmæti úr auðlindinni. Tilfærsla milli byggða reynist skaðleg sveitarfélögum og tilfærsla milli útgerðarflokka gæti leitt til þess að minni útgerðir færu halloka,“ sagði hún einnig.

„Lögin hafa ekki náð tilgangi sínum. Eins og þau hafa verið túlkuð má einn aðili ráða yfir 12% kvótans og því til viðbótar eiga 49,99% hlut í öllum hinum fyrirtækjunum sem ráða yfir þeim 88% sem út af standa. Þannig getur einn aðili átt hlutdeild í meira en helmingi kvótans sem árlega er úthlutað. Þessi túlkun á lögunum ýtir augljóslega undir samþjöppun og gengur þannig þvert á anda laganna. Samþjöppun leiðir af sér fábreytt útgerðarform, aukna kerfislæga áhættu og getur leitt til einokunar. Stóru útgerðarfyrirtækin hér á landi eru í raun rekin sameiginlega og hafa samráð um veiðar, vinnslu og sölu afurða. Það er nauðsynlegt að vinna gegn slíkri samþjöppun og því að stóru fyrirtækin verði svo stór að völd þeirra og áhrif í þjóðfélaginu geti orðið skaðleg, að áhrif þeirra á ákvarðanir í stjórnkerfinu og á vettvangi stjórnmála geti unnið gegn almannahag. Það þarf að endurskoða lögin og það þarf að gera það strax og koma þannig í veg fyrir frekari samþjöppun eða núverandi túlkun á lögunum. Fyrirmynda án fordæma mætti auðveldlega leita í þeirri þróun sem hefur átt sér stað á fjármálamarkaði varðandi það hvenær aðilar teljist tengdir og hvað felst í raunverulegum yfirráðum. Þar hefur þetta mark verið lækkað og viðurkennd sú aðstaða sem aðilar eru í ef þeir hafa veruleg áhrif í félögum. Í nýjum lögum um skráningu raunverulegra eigenda er miðað við 25% beinan eða óbeinan eignarhlut til að aðilar geti talist tengdir eða aðili teljist raunverulegur eigandi. Allar þær upplýsingar eru samkvæmt lögum aðgengilegar almenningi,“ sagði Oddný Harðardóttir.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: