- Advertisement -

Leiga verði felld niður í tvo mánuði

Félag leigjenda hjá Félagsbústöðum, sem formlega hefur fengið nafnið „Blokkin“, sendir frá sér eftirfarandi yfirlýsingu:

Áskorun frá Blokkinni til velferðarsviðs, borgarráðs, velferðarráðs og Félagsbústaða

Blokkin, félag leigjenda hjá Félagsbústöðum, skorar á Borgarráð, Velferðarráð, Velferðarsvið og Félagsbústaði að taka höndum saman og koma með öllum ráðum í veg fyrir vanskil og fjárhagsörðugleika leigjenda hjá Félagsbústöðum. Krafa okkar er að leiga verði felld niður í 2 mánuði og í framhaldi verði leiða leitað til að aðstoða þau sem lenda í áframhaldandi vandræðum með ýmsum leiðum. Einnig skorum við á Félagsbústaði að auka samskipti við leigjendur sem lent hafa í vanskilum og að falla frá því að senda greiðsluseðla sjálfkrafa til innheimtufyrirtækja án þess að leitað hafi verið leiða til samninga fyrst.

Leigjendur Félagsbústaða eiga það sameiginlegt að vera tekjulágir, enda skilyrði fyrir búsetu fyrst og fremst þau að vera undir ákveðnum tekjumörkum. Auk þess tilheyra íbúar flestir félagslega- og/eða heilsufarslega viðkvæmum hópum samfélagsins sem augljóslega standa veikast gagnvart þeim aðstæðum sem nú hafa komið upp í þjóðfélaginu. Það er því sýnt að stór hópur leigjenda muni á næstu misserum lenda í talsverðum vandræðum með að standa við sínar fjárhagsskuldbindingar og brýnt að grípa inn í með aðgerðum sem vernda allan hópinn.

Fjárhagsleg staða leigjenda er innbyrðis nokkuð misjöfn en við getum þó verið þess fullviss að niðurfelling muni létta róður allra á þessum erfiðu tímum. Margir eru mjög kvíðnir fyrir framhaldinu og áhyggjur af viðkvæmum fjárhag og fjárhagsleg óvissa er okkur öllum sameiginleg. Það er nokkuð ljóst að frystingar og dreifingar á greiðslum muni ekki hjálpa mikið í þessum aðstæðum, heldur frekar stuðla að auknum vanskilum í framhaldi. Það að auka mánaðarleg útgjöld vegna dreifinga eða búa til stóra „skuldasnjóbolta” er einfaldlega ekki lausn í þessu sambandi og því er þörf á róttækari, fyrirbyggjandi aðgerðum.

Við skorum því á ofangreinda aðila að vinna saman að raunhæfum lausnum fyrir alla leigjendur á þessum erfiðu tímum og bendum á að fjölda fordæma má finna fyrir þessari leið, bæði á Íslandi og löndunum í kringum okkur.


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: