- Advertisement -

Margfaldir Íslandsmeistarar í verðbólgu

Marinó G. Njálsson skrifar:

Er ekki kominn tími til að þessir flokkar snúi sér að einhverju öðru? Plís, hættið að skipta ykkur af efnahagsmálum þjóðarinnar.

Efnahagsmál Það tíðkaðist hér í gamla daga, þegar Framsókn og/eða Sjálfstæðisflokkur voru í stjórn, saman eða hvor í sínu lagi, að gera ekkert og vonast til þess að erfiðleikar í efnahagslífinu liðu hjá. Enn er slík ríkisstjórn á Íslandi og vafalaust munu formenn flokkanna berja sér á brjósti í kosningunum á næsta ári, að þeir hafi nú reddað öllu (með því að gera ekki neitt).“

„Þetta er allt að koma“ var yfirskrift kynningar fjármála- og efnahagsráðherra á fjármálafrumvarpinu. Já, verðbólga á það til að fara niður að lokum, ef menn bíða nógu lengi, en hún hefði kannski lækkað fyrr, ef unnið hefði verið markvisst að því að lækka hana.

Já, „Þetta er allt að koma“, en allt of seint og allt of hægt. Í þetta sinn, eins og svo oft áður, þá er allt að koma þrátt fyrir aðgerðir og aðgerðarleysi ríkisstjórnar með Sjálfstæðisflokk og Framsókn. Ekki vegna þeirra.

BÆÐI SKIPTIN VORU SJÁLFSTÆÐISFLOKKUR OG FRAMSÓKN Í STJÓRN.

Núverandi verðbólgutímabil er lengsta tímabil með 5,8% verðbólgu eða meiri frá því óðaverðbólgan á 8., 9. og 10. áratugnum fór fyrst undir 5,8% í mars 1991 (5,3%) eftir rúmlega 19 ár þar sem verðbólga var mánuð eftir mánuð og ár eftir ár yfir 20%. Og hvaða flokkar ætli hafi verið í stjórn nánast viðstöðulaust öll þessi ár? Jú, Framsókn og Sjálfstæðisflokkur, saman eða bara Framsókn. Í kringum hrun voru mánuðirnir 30 (byrjaði í ríkisstjórnartíð Sjálfstæðisflokksins). Þar á eftir 11 frá júní 2001 til apríl 2002, 10 frá maí 2006 til febrúar 2007. Bæði skiptin voru Sjálfstæðisflokkur og Framsókn í stjórn.

Alls eru mánuðirnir núna orðnir 31 og enn gæti einn eða tveir bæst við. Núverandi ríkisstjórn hefur nákvæmlega ekkert gert til að slá á verðbólguna. Var bara eins og það væri ekki hennar verkefni að koma skikk á efnahagsmálin.

Eins og svo oft áður, þá var ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokk og Framsókn stikkfrí. Þetta gerðist á 8. áratugnum, þegar Geir Hallgrímsson og Ólafur Jóhannesson voru forsætisráðherrar, á þeim níunda með hvort heldur Steingrím Hermannsson eða Þorstein Pálsson sem forsætisráðherra, á árunum eftir aldamót með Davíð Oddsson, Halldór Ásgrímsson og Geir H. Haarde sem forsætisráðherra og hin síðustu ár með Katrínu Jakobsdóttur og Bjarna Benediktsson sem forsætisráðherra.

Er ekki kominn tími til að þessir flokkar snúi sér að einhverju öðru? Plís, hættið að skipta ykkur af efnahagsmálum þjóðarinnar.

Greinin birtist fyrst á Facebooksíðu höfundar og er birt hér með góðfúslegu leyfi höfundar.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: