- Advertisement -

Meira en minna er fjarri nóg

BB: Við höfum sætt okkur við að fara í halla.

Alþingi / „Ég tel að við höfum staðið við það sem við sögðum í upphafi að við vildum taka myndarlega á þessu og gera meira heldur en minna,“ sagði Bjarni Benediktsson, í umræðunni um fjáraukalög.

„Við höfum ekki farið í niðurskurð eins og stundum hefur verið gert. Við höfum sætt okkur við að fara í halla vegna þess að við höfum búið í haginn til þess að geta gert það. Skattabreytingar hafa engar verið nema við höfum verið með ýmsar aðgerðir til að fresta innheimtu skatta. Það er því ekki rétt hjá háttvirtum þingmanni að okkar aðgerðir hafi eingöngu einkennst af því að grípa þá sem eru orðnir atvinnulausir,“ bætti hann við.

Enn er það Ágúst Ólafur Ágústsson sem hreyfði athugasemdum við orðum Bjarna:

ÁÓÁ: Ég er ekki að tala út í loftið.

„Hæstvirtur ráðherra hefur ítrekað sagt að hann vilji frekar gera meira en minna. Hvernig stendur á því að námsmenn eru ekki vitni að því eða sammála þeirri staðhæfingu? Hvernig stendur á því að sveitarfélögin eru ekki sammála þeirri staðhæfingu? Hvernig stendur á því að þeir sem eru úti í feltinu, hvort sem það er verkalýðshreyfingin eða Samtök iðnaðarins, eru ekki sammála þessari fullyrðingu? Gott og vel. Hæstvirtur ráðherra þarf ekkert að taka mark á stjórnarandstöðuþingmanninum, Ágústi Ólafi, en ég er í fjárlaganefnd Alþingis og sé þær umsagnir sem við fáum við fjárauka eitt og tvö og við fjárfestingarátak og nú þriðja fjáraukann. Það er ítrekað verið að benda okkur á að það er hægt að gera betur. Ég er ekki að tala út í loftið. Ég hvet hæstvirtan ráðherra til að kíkja á þær umsagnir sem við fáum frá þessum aðilum. Þeir benda á það sama og ég, að hér er einfaldlega ekki gert nóg. Hér er ekki verið að gera meira heldur en minna.“

Svo kom merk athugasemd frá þingmanninum Ágústi Ólafi:

„Stundum finnst mér eins og við í fjárlaganefnd séum að leggja þær byrðar á hagsmunaaðila úti í samfélaginu að gefa okkur vandaðar umsagnir sem ég veit ekki hvort eru einu sinni lesnar í fjármálaráðuneytinu. Við gerum afskaplega lítið með þetta í fjárlaganefnd því meiri hluti hennar leggur venjulega ekki til miklar breytingar. Ég hef ítrekað gagnrýnt félaga mína þar.“

-sme


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: