- Advertisement -

Mikill meirihluti vill leigubremsu og leiguþak

Guðmundur Helgi Arngrímsson, formaður Samtaka leigjenda, skrifar:

Mikill meirihluti landsmanna, 72 prósent, er hlynntur því að tekin verði upp leigubremsa á Íslandi. Leigubremsa er það kallað þegar gefið er út viðmið hversu mikið húsaleiga má hækka yfir tiltekið tímabil. Þetta kom fram í könnun sem Maskína gerði fyrir Samtök leigjenda á Íslandi. Aðeins 11% sögust vera fremur eða mjög andvíg því að tekin yrði upp leigubremsa, 72 prósent frekar eða mjög hlynnt.

Sama niðurstaða kom fram um leiguþak, en leiguþak er það kallað þegar gefið er út hámarksleiguverð á leiguhúsnæði miðað við stærð, gæði og staðsetningu. 71% mjög eða frekar hlynnt því að sett yrði á leiguþak en aðeins 13% frekar eða mjög andvíg slíku.

„Það er ljóst að meginþorri almennings vill verja leigjendur fyrir því óstjórnlega okri sem hér hefur geisað á leigumarkaði,“ segir Guðmundur Hrafn Arngrímsson, formaður Samtaka leigjenda. „Og að aðeins lítill minnihluti vill það ekki. Vandi okkar er að það er þessi minnihluti sem ræður stefnu stjórnvalda. Það er vandi leigjenda og vandi okkar samfélags.“

Þú gætir haft áhuga á þessum

Meirihluti er fyrir bæði leigubremsu og leiguþaki í öllum tekjuhópum, aldurshópum, kynjum og landshlutum. Það er sama hvaða menntun fólk hefur, hvaða flokka það kýs eða hver staða þess er á leigumarkaði. Alls staðar segist meirihlutinn vilja bæði leigubremsu og leiguþak.

Þarna er blæbrigðamunur en megin niðurstaðan er að könnunin sýnir að fólk vill verja leigjendur.

Ef við tökum andstöðuna þá eru 15% karla frekar eða mjög andvíg leigubremsu en 7% kvenna. Hlutföllin eru 18% og 8% þegar kemur að leiguþaki. Í aldri er andstaðan mest hjá fólki á fertugsaldri, 19% gegn leigubremsu og 20% gegn leiguþaki, en andstaðan er 6% og 11% hjá yngsta fólkinu og 10% í báðum tilfellum hjá því elsta. Það má að sama skapi sjá að andstaðan gegn leiguþaki vex með meiri menntun og andstaðan gegn bæði leigubremsu og leiguþaki með hærri tekjum. En jafnvel meðal hinna tekjuhæstu er mikill meirihluti fylgjandi leigubremsu, 67%, og leiguþaki, 64%.

88% þeirra sem búa í leiguhúsnæði segjast mjög eða frekar fylgjandi leigubremsu og 84% vilja leiguþak. Meðal þeirra sem búa í eigin húsnæði er stuðningurinn 71% og 70%. Þarna er blæbrigðamunur en megin niðurstaðan er að könnunin sýnir að fólk vill verja leigjendur. Leigjendur og tekjulægra fólk vill það enn frekar en mikill meirihluti þeirra sem eru betur sett og búa í eigin húsnæði vill líka að sett verði á leigubremsa og leiguþak.

Þegar skoðuð er afstaða stuðningsfólks einstakra stjórnmálaflokka til leigubremsu og leiguþaks sést að meirihluti er fyrir þessu í öllum flokkum. Hann er mestur hjá Sósíalistum, Samfylkingarfólki, Flokki fólksins og Pírötum en minnst meðal kjósenda Sjálfstæðisflokks og Viðreisnar. Þar er andstaðan líka mest. 30% kjósenda Sjálfstæðisflokksins vilja t.d. ekki leiguþak og 26% ekki leigubremsu. En 54% stuðningsfólks flokksins vill leiguþak og 52% leigubremsu. Andstæðingarnir eru töluvert færri en stuðningsfólkið.

„Þetta er mikilvægar upplýsingar um afstöðu almennings,“ segir Guðmundur Hrafn. „Stjórnvöld hafa byggt sína stefnu á ýmsu kenningum og eigin brjóstviti. Nú geta þau séð hvað almenningur vill. Fólk vill verja leigjendur fyrir okrinu. Í lýðræðisþjóðfélagi hljóta stjórnvöld að taka mið að því, stýra landinu þangað sem fólkið vill fara.“

Könnunin var gerð af Maskínu fyrir Samtök leigjenda á Íslandi. Könnunin fór fram frá 2. til 12. september.

Hér að neðan er opið kommentakerfi. Takið þátt í umræðunni.


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: