- Advertisement -

Nú er tækifæri til að stíga skref fram á við

Engar lausnir nema aukið framboð vinna gegn háu verði.

Ragnar Önundarson skrifar:

Nú förum við inn í efnahagslægð. Það hefur ítrekað gerst að þegar léttir til á ný er skortur á framboði nýrra íbúða við hæfi ungra kaupenda og annarra sem hafa ekki mikið á milli handanna. Afleiðingin hefur verið sú að eftirspurnin fer af stað og verðið fer upp.

Hvernig getum við unnið gegn þessu? Engar lausnir nema aukið framboð vinna gegn háu verði. Framleiðendur íbúða eru nú orðnir fáir, stórir, þeir hagnast á skorti og viðhalda honum. Hvar í flokki sem sveitarstjórnarmenn standa virðast þeir hafa verið sammála um eitt: Að henda ungu fjölskyldunum fyrir verktaka-vargana.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Árið 1977 fékk ég, ásamt fjórum öðrum, úthlutað lóð (rétt til byggingar íbúðar) í litlu fjölbýlishúsi í Breiðholti. Við réðum okkur smiði og stóðum næsta árið í að koma húsinu upp. Við slógum utan af og hreinsuðum mótatimbur. Engin hætta var á að voldug leigufélög með peninga lífeyrissjóða okkar að vopni kæmust yfir íbúðirnar. Þannig komu fimm ungar fjölskyldur þaki yfir höfuðið af eigin rammleik.

Tillaga mín er sú að sveitarfélög (sem hafa tilskilinn fjárhag) undirbúi lóðir, láti hanna fjölbýli sem henta unga fólkinu, geri botnplötur og úthluti síðan byggingaréttinum til ungra fjölskyldna. Þetta ættu þau ekki síst að gera í efnahagslægð svo viðbragðstími markaðarins verði lágmarkaður þegar birtir til. Það er skorturinn sem myndast vegna langs viðbragðstíma sem hinir fjársterku nýta sér til að féfletta unga fólkið.

Núna er tækifærið til að stíga skref fram á við. 


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: