- Advertisement -

Minni fiskvinnslum mun fækka

Alþingi „Nú er mikil bylting í fiskvinnslu, bylting sem menn líkja við það þegar flökunarvélin kom til sögunnar. Þessi bylting felst í ákveðnu skurðartækni sem mun fyrirsjáanlega fækka fiskvinnslum í landinu. Eitthvað af litlum og meðalstórum fiskvinnslum sem reknar eru í dag munu leggjast af. Þróunin mun halda áfram. Sjávarútvegurinn verður ekki sá byggðafestugrunnur sem menn hafa horft til,“ sagði Jón Gunnarsson alþingismaður í umræðunni um fjárlög næsta árs.

Bara sjávarútvegur og orkutengdur iðnaður

„Nú horfum við upp á að það eru í raun aðeins tvær atvinnugreinar í landinu, vissulega mjög veigamiklar og öflugar, sjávarútvegur og orkutengdur iðnaður, sem standast samanburð við framlegð. Við sjáum fram á að í þessum greinum mun tækniþróuninni fleygja fram á næstu árum.“

Hann sagði að við þessu verði að bregðast: „Menn verða að horfa til þess með hvaða hætti við ætlum í áherslum okkar til framtíðar að svara þessum krefjandi spurningum. Við munum ekki gera það án þess að skapa önnur tækifæri um landið samhliða aukningu í ferðaþjónustu. Þá sköpum við önnur grunnatvinnutækifæri, aðrar áherslur í byggðafestu.“

Þú gætir haft áhuga á þessum

Hálfrar aldar reynsla af orkutengdum iðnaði

„Við getum tekið dæmi um slík atriði. Á Vestfjörðum stefnir fiskeldi og laxeldi í að verða grunnur að byggðafestu og uppbyggingu. Við berum öll von til þess að þetta verði nokkurs konar stóriðja Vestfjarða. Við horfum til þess að á Bakka við Húsavík er kominn grunnur að orkutengdum iðnaði. Orkutengdur iðnaður hefur reynst vera mikil kjölfesta þar sem hann er til staðar. Hann skapar vel launuð og traust störf til lengri tíma. Við höfum yfir hálfrar aldar reynslu af orkufrekum iðnaði, mjög góða reynslu í þessu tilliti, góða framlegð, vel launuð störf og litla starfsmannaveltu. Mikil byggðafesta getur skapast í kringum þann iðnað,“ sagði Jón Gunnarsson á Alþingi.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: