- Advertisement -

Nokkuir orð um Klappið í strætó

Umræða um Klappið, greiðslukerfi strætó er mikilvægt mál, það tengist dagsdaglegu lífi margra, þegar farið er í vinnu og skóla og ferðast á milli ólíkra staða.

Klappið lá niðri í morgun og þegar ég var að fara um borð í strætó þá hélt ég að eitthvað væri að símanum mínum og þess vegna hafi ég fengið villumeldingu. Ég hugsaði með mér að það væri sennilega gott að slökkva og kveikja á símanum, þá myndi þetta kannski lagast. Svo sá ég að vagninn nálgaðist óðfluga, þannig að ég náði ekki að láta reyna á það, því ég vildi tryggja að þegar vagninn kæmi, væri ég tilbúin með Klappið sýnilegt. Ég hugsaði með mér að það væri betra að sýna að ég hefði Klappið en kæmist ekki inn á það, frekar en að vera með slökkt á símanum og ekkert Klapp sýnilegt.

Þegar í vagninn var komið, reyndi ég ítrekað að skrá mig inn en það virkaði ekki.

Síðar sá ég svo tilkynningu á heimasíðu strætó um að Klappið lægi niðri og létti mikið við það að vita að það væri komin ástæða óg útskýring og að vagnstjórar væru þá komnir með vitneskju um þetta.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Þessi staða er ekki í fyrsta skiptið sem eitthvað svona gerist og sem strætófarþegi finnst mér oft streituvaldandi að nota Klappið. Áður en ég stíg í vagninn hugsa ég oft: „Mun þetta virka núna, vonandi verður ekki vesen“. Og á regnþungum dögum passa ég mig og tek símann ekki upp fyrr en ég er tilbúin að skanna, en samt nógu snemma svo ég sé búin að ná að opna appið og græja það þegar vagninn kemur. Því ég vil ekki að allt verði stopp út af mér sem er að virkja Klappið á meðan að fleiri bíða eftir því að komast inn í vagninn. Af því ég er búin að læra að það er ekki gott að opna QR kóðann of snemma, heldur rétt áður en þú skannar til að auka líkurnar á að Klappið virki.

Strætófarþegar hafa ítrekað tjáð sig um hve langan tíma það tekur að skanna inn kóðann í Klapp kerfinu. Þeir velta því jafnframt fyrir sér hvers vegna svo sé. Greiðslufyrirkomulagið átti að vera betra og skilvirkara en svo er ekki. Spurningar hafa verið settar fram af strætófarþegum varðandi það af hverju sú ákvörðun hafi verið tekin um að fara þessa leið, þar sem hún virkar ekki betur en raun ber vitni.

Núverandi greiðslufyrirkomulag er einnig útilokandi fyrir öryrkja, sem þurfa að virkja afslátt rafrænt í gegnum heimasíðu tryggingastofnunarinnar. Að því loknu er hægt að kaupa Klapp kort í síma en öryrkjum stendur sá valmöguleiki ekki til boða á sölustöðum Klappsins sem eru víðsvegar um borgina.

Ég ætla að nefna hér eitt dæmi um hversu snúið það er: Að eiga ekki tölvu, virkja afsláttinn frá TR í gegnum síma og kaupa Klapp kort sem kemur þá í símann en skjárinn á símann brotnar, þannig að klappið virkar ekki nógu vel. Þú ert ekki viss hvort það sé út af símanum eða bara að Klappið virki ekki nógu vel og þú hefur ekki möguleika á að kaupa nýjan síma af því slíkt kostar sitt.

Það er hægt að kaupa Klapp kort en öryrkjar geta ekki keypt slíkt niðurgreitt kort á sölustöðum Klappsins, heldur þurfa að fara upp í Hestháls sem tekur sinn tíma fyrir þau sem búa ekki í því hverfi. En svo er hægt að fara langa leið til að leysa þetta: kaupa Klapp kort, með engum miðum, semsagt áþreifanlegt kort til að geyma í veskinu og millifæra þá símaklappkortið á það kort. En þessi lausn uppgötvaðist fyrir algjöra tilviljun. Það er ekki verið að auglýsa það sem lausn.

Ef þú ert með Klappið í símanum þá þarftu að eiga nettengdan síma svo að greiðslufyrrikomulagið virki og síminn má alls ekki verða batteríislaus.

Í borgarstjórn ræðum við tillögu Sjálfstæðisflokksins sem snýst um að gera úttekt á greiðslufyrirkomulaginu og færa fram tillögur til úrbóta. Ég myndi vilja setja áhersluna á það að laga kerfið. Mögulega þarf úttekt til þess. En ég vil setja aðaláhersluna á að Klappið verði lagað eða að það sé gott kerfi í vögnunum sem virkar. Svo vaknar auðvitað spurningin um hvort seljandi hafi uppfyllt allar sínar skyldur þegar við erum með kerfi sem er ekki að virka? Og hvernig verður það þá afgreitt?

Ég leitaði á náðir samfélagsmiðla til að kalla eftir skoðun fólks á Klappinu og hvernig gengi að nota það. Í kjölfarið fékk ég ýmis svör sem mér finnst rétt að nefna hér. Helstu þemu sem má greina úr þeim athugasemdum snúa að skilvirkni, að það geti tekið langan tíma fyrir stóra farþegahópa að skanna kortið, þegar margt fólk kemur inn í vagninn á sama tíma og að það sé erfitt þegar kerfið virki ekki og fjallað um afleiðingarnar sem það hefur í för með sér. Svo komu einnig fram svör um að það hafi gengið vel að nota Klappið og sumir upplifðu litla eða enga erfiðleika en þá fygldu oft athugasemdir með um hvað mætti betur fara við nýja greiðslufyrirkomulagið og appið sjálft, t.d. varðandi það að birta staðsetningar á vögnum. Og Klappið borið saman við eldra strætó appið og það jákvæða sem var í því.

En aðrar athugasemdir sem ég fæ að birta hér eru til að mynda:

„Ekki vel hannað og ekki eins gott og Strætó appið. Tekur of mikið af skjánum t.d. þegar verið er að skoða leiðarkerfið og ekki hægt að kaupa hópmiða.“

„Dettur of oft út.“

„Alltaf í ólagi“

„Ég bý úti á landi en nota stundum strætó í bænum þegar ég er þar. Klappið hefur aldrei virkað.“

Og svo ég haldi áfram:

„Nota Klapp-kort og það gengur ágætlega. Er ekki með appið í símanum því ég myndi ekki treysta því. Helstu snúningarnir fyrir mig er að fylla á það á netinu en þannig er það alltaf með alla netverslun.“

„Ágætlega en mér finnst að ef margir fara í strætó þá tekur of langan tíma að borga með Klapp sem hefur enn meiri áhrif á stundvísi bílanna.“

Þetta eru nokkur dæmi sem ég tek hér fram og ég þakka fyrir svörin sem bárust. Ljóst er að það þarf að laga vankantana.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: