- Advertisement -

Núverandi ríkisstjórn hefur nokkra mánuði til að leiðrétta sín fyrri mistök

Marinó G. Njálsson:

Fólk horfir á fjármagnstekjur upp á milljarða hundruð renna til tiltölulega afmarkaðshluta landsmanna, sem margir eru búsettir í útlöndum. Á sama tíma er vöxtum á húsnæðislánum haldið í hæstu hæðum.

Konungar, keisarar, einvaldir og ríkisstjórnir hafa í árþúsundir glímt við sambærileg viðfangsefni, þ.e. ólgu og óánægju í sínum samfélögum. Úrræðin hafa verið margs konar, en niðurstaðan oftast sú sama. Viðkomandi hefur verið steypt af stóli, ýmist í uppreisn eða næstu kosningum. Fáir hafa haft þá gæfu að snúa af rangri braut og stuðla þannig að ró og ánægju.

Eldri austurlenskir spekingar höfðu allir miklar skoðanir á hvernig góður stjórnandi væri. Finna má þessi heilræði í hinum ýmsu ritum og er ekki hægt annað en furða sig á því, hve lítinn gaum nútíminn gefur þessari speki. Kannski er það vegna þess, að hún verður ekki sett í hagfræðilíkön eða fellur ekki að kenningum frjálshyggjupostulanna. Það er mín skoðun, að enginn eigi að setjast í sæti ráðherra nema hafa lesið einhver af þessum ritum. Byrja má á Bhagavad-Gita, því hún er stutt og auðlesin, en fyrir lengra komna nær lífspeki Búddha langt út fyrir öll trúarbrögð. Harvard Business School hefur mælt með því að þeir sem ætla að verða stjórnendur kynni sér austurlensk fræði.

Sagan kennir okkur, að almúginn þolir bara ákveðið og eftir það gerir hann uppreisn gegn valdinu sem hefur hunsað hann. Í lýðræðisþjóðfélagi er það gert í kosningum.

Núna stefnir í að einn flokkanna hverfi af þingi, annar rétt hangi inni og sá þriðji fái auðmýkjandi kosningu.

Skoðanakannanir hafa sýnt, að núverandi stjórnvöld eru ekki mjög vinsæl. Hvort þessari kannanir raungerist í næstu kosningum á svo sem eftir að koma í ljós. Núna stefnir í að einn flokkanna hverfi af þingi, annar rétt hangi inni og sá þriðji fái auðmýkjandi kosningu.

Skilaboð Búddha voru að hlutverk stjórnvalda (þó hann hafi talað um einvald) sé að veita lögbundna vernd, skjól og öryggi fyrir borgarana. Að aðeins sá, sem geti veitt lögbundna vernd, skjól og öryggi fyrir borgarana, geti gert tilkall til þess að vera réttmætur stjórnandi. Slíkur stjórnandi verði að láta verkin tala, hugann fylgja og tjá sig í skýru máli, skiptir þá bæði hvað skal gera og hvað verður forðast.

Mitt mat er, að stjórnvöldum á Íslandi hafi í langan tíma mistekist að veita öllum landsmönnum lögbundna vernd, skjól og öryggi. Þau hafa veigrað sér að takast á við krefjandi viðfangsefni almenningi til heilla og grafið undan trú fólks á réttlæti. Of oft er horft til hagsmuna fárra á kostnað hagsmuna heildarinnar.

Fólk horfir upp á enn eitt sjávarútvegsfyrirtækið selt með gríðarlegum hagnaði og auðinn renna í vasa þeirra sem fengu auðlindir þjóðarinnar afhentar fyrir lítið. Á meðan teljast öryrkjar breiðu bök þjóðarinnar.

Fólk horfir á fjármagnstekjur upp á milljarða hundruð renna til tiltölulega afmarkaðshluta landsmanna, sem margir eru búsettir í útlöndum. Á sama tíma er vöxtum á húsnæðislánum haldið í hæstu hæðum.

Fólk horfir upp á norska auðmenn fá ókeypis aðgang að fjörðum landsins og helst um ókomna framtíð. Á sama tíma vantar fjármagn til að styrkja innviði landins.

Fólk horfir upp á, að orkuverð sé að hækka, vegna hagnaðarsjónarmiða fárra sem telja sig ráða hvert raforka framleidd með auðlindum landsins er seld.

Arður af auðlindum landsins á að langstærstum hluta að renna til almennings, helst sem stystu leið.

Hér eru tekin fjögur dæmi. Hefði getað haft þau mun fleiri. Öll eru þau hluti af þeim kinnhestum sem almúginn hefur verið sleginn, af þeim stjórnmálamönnum sem skilja ekki vilja almennings. Sem sóa tækifærum til að bæta hag þjóðarinnar, vegna þess að einhver annar er mikilvægari. Þess vegna er núverandi ríkisstjórn að tapa fylgi sínu jafn hratt og raun ber vitni. Núverandi ríkisstjórn veitir almenningi ekki lögbundna vernd, skjól og öryggi, heldur lítur á hann sem botnlausan sjálftökusjóð fyrir sig, bankana, stóru verslunarfyrirtækin og aðra þá sem vilja hagnast eins og enginn sé morgundagurinn.

Núverandi ríkisstjórn hefur nokkra mánuði til að leiðrétta sín fyrri mistök. Í því felst að afnema nýleg lög um samráð í landbúnaði, hætta við lög um ókeypis aðgang lagareldisfyrirtækja að fjörðum landsins, jafna skattheimtu, þannig að allar tekjur séu meðhöndlaðar innan sama ramma, hætta við að skerða framlög til þeirra sem hafa verið öryrkjar allt sitt líf, breyta fiskveiðistjórnunarkerfinu þannig að almenningi finnist það sanngjarnt, innleiða raunverulegar umbætur í húsnæðismálum, koma í gegn breytingum á stjórnarskránni í þeim anda sem þjóðin samþykkti í þjóðaratkvæðagreiðslu á sínum tíma.

Mikilvægast af öllu er, að núverandi ríkisstjórn og þær sem á eftir koma, hugsi fyrst um almenning í hvert sinn sem einhver hugmynd kemur upp. Því hagur almennings á alltaf að vera í fyrirrúmi og á alltaf að vera mestur. Arður af auðlindum landsins á að langstærstum hluta að renna til almennings, helst sem stystu leið.

Greinin birtist fyrst á Faccebooksíðu höfundar. Hún er birt hér með góðfúslegu leyffi Marinós.


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: