- Advertisement -

Ný vefur fyrir líffæragjafa

Búið er að opna sérstakt vefsvæði fyrir fyrir þá sem hafa áhuga á að skrá sig sem líffæragjafa. Fólk er hvatt til að taka afstöðu og lýsa vilja sínum í þessum efnum. Nauðsynlegt er að nota Íslykil eða rafræn skilríki til þess að nota vefinn.

Vefsvæðið má nálgast gegnum hnapp á heimasíðu Embættis landlæknis (www.landlaeknir.is). Þar eru margvíslegar upplýsingar sem tengjast líffæragjöf, settar fram á aðgengilegan hátt sem spurningar og svör. Til að lýsa afstöðu sinni til líffæragjafar þarf fólk að opna sérstakt svæði á vefnum og auðkenna sig með Íslykli eða rafrænu skilríki.

Á vef landlæknis kemur fram að Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra hafi verið fyrstur til að skrá sig í grunninn.

Fram til þessa hefur fólk sem er reiðubúið að gefa líffæri ef á reynir þurft að fylla út sérstakt líffæragjafakort og ganga með það á sér. Að öðru leyti hafa upplýsingar um líffæragjafa hvergi verið skráðar og engar tölulegar upplýsingar eru til hér á landi um fjölda þeirra.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Geir Gunnlaugsson landlæknir segir reynslu annarra þjóða sýna að fjölþættar aðgerðir séu nauðsynlegar til að fjölga líffæragjöfum. Miklu skipti að veita markvissa fræðslu og upplýsingagjöf til almennings og eins sé mikilvæg fræðsla og þjálfun fyrir heilbrigðisstarfsfólk, m.a. til að ræða við aðstandendur um líffæragjöf. „Eins er ég viss um að þessi nýi vefur sem gerir fólki svona auðvelt að skrá vilja sinn muni hafa mikil áhrif.“

Þess má geta að heilbrigðisráðherra hefur í samræmi við vilja Alþingis óskað eftir tilnefningum í nefnd sem falið verður að fjalla um líffæragjafir og leiðir til þess að fjölga líffæragjöfum.

Sjá nánar ef vef landlæknis.

 

 

 


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: