- Advertisement -

Öryrkjar fá 281 þúsund krónur á mánuði

Þannig eru hungurleikarnir sem stjórnmálastéttin á Íslandi býður öryrkjum upp á.

Jóhann Páll Jóhannsson.

Jóhann Páll Jóhannsson Samfylkingu sagði þetta á Alþingi í dag:

281.000 kr. Þetta eru ráðstöfunartekjur öryrkja í sambúð sem fékk örorkumat 40 ára. 281.000 kr. er sú fjárhæð sem ríkisstjórn Íslands og þingmenn stjórnarflokkanna halda að dugi öryrkja til að draga fram lífið í hverjum mánuði. 281.000 kr. eiga að hrökkva fyrir húsnæði, mat, fötum, hjálpartækjum og læknisþjónustu. Þannig eru hungurleikarnir sem stjórnmálastéttin á Íslandi býður öryrkjum upp á. Svona getum við ekki haft þetta og þurfum að breyta þessu.

Í fyrsta lagi þurfum við hér á Alþingi að taka stefnumarkandi ákvörðun um að stöðva kjaragliðnun lífeyris og lægstu launa og koma 69. gr. almannatryggingalaga í fastari skorður. Þar er t.d. hægt að styðjast við sams konar reiknireglu og þegar launahækkanir þingmanna og ráðherra eru ákvarðaðar.

Öryrki hættir auðvitað ekkert að vera öryrki um leið og hann verður 67 ára, það segir sig sjálft.

Í öðru lagi þurfum við að leiðrétta óréttlætið sem felst í því að aldurstengda örorkuuppbótin verður að engu um leið og öryrkjar fara á ellilífeyri, án þess að neitt komi í staðinn. Öryrki hættir auðvitað ekkert að vera öryrki um leið og hann verður 67 ára, það segir sig sjálft. Þetta er einmitt sá hópur eldra fólks sem er með minnstu réttindin í lífeyrissjóðum.

Í þriðja lagi ættum við að gera sérstöku framfærsluuppbótina og 65% skerðinguna sem henni fylgir óþarfa, með því að hækka aðra bótaflokka sem uppbótinni nemur og hætta þannig að refsa tekjulægsta fólkinu fyrir að afla sér tekna.

Þetta eru þrjár einfaldar aðgerðir sem myndu skipta sköpum fyrir tekjulægsta fólkið á Íslandi. Þetta kostar peninga og kallar á breytta forgangsröðun við landsstjórnina. En, virðulegur forseti, einhver skilvirkasta og árangursríkasta leiðin til að vinna gegn fátækt og ójöfnuði er að bæta kjör öryrkja. Þannig er það.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: