- Advertisement -

Ráðhúsið: „Laumuspil og leyndarhyggja“

„…varaborgarfulltrúanum verið sagt að hún megi hvorki sýna oddvita sínum gögn né ræða við hann um það sem fram fer í rýnihópnum.“

Friðjón R. Friðjónsson, Birna Hafstein og Helgi Áss Grétarsson, Sjálfstæðisflokki.

„Laumuspil og leyndarhyggja hafa einkennt vinnubrögð borgarstjórnarmeirihlutans í málinu. Borgarfulltrúar og stjórnarmenn meirihlutans í stjórn Orkuveitu Reykjavíkur hafa hvað eftir annað að neitað að tjá sig um málefni Ljósleiðarans þrátt fyrir að umfangsmiklar og upplýsandi umræður hafi átt sér stað síðan í september um kaup þessa dótturfyrirtækis Orkuveitur Reykjavíkur á stofnneti Sýnar og þjónustusamning milli fyrirtækjanna,“ segir í bókun þriggja borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, þeirra Friðjóns R. Friðjónssonar, Helga Áss Grétarssonar og Birnu Hafstein.

„Ljóst er að umrædd ákvörðun er mikils háttar enda um að ræða margra milljarða kaup og fjárfestingu utan skilgreinds starfssvæðis Orkuveitu Reykjavíkur. Mikilvægt er að fram fari umræða á vettvangi borgarstjórnar um þennan viðskiptasamning og þá stefnubreytingu sem hann hefur í för með sér fyrir Ljósleiðarann, Orkuveitu Reykjavíkur og Reykjavíkurborg. Tilgangurinn með umræðubanni er greinilega sá að koma í veg fyrir umræðu sem meirihlutanum finnst óþægileg, þ.e. um stórfellda lántöku Ljósleiðarans og áhrif hennar á fjárhagsáætlanir Reykjavíkurborgar og Orkuveitunnar. Þá er ljóst að borgarstjóri og aðrir borgarfulltrúar meirihlutans reyna að firra sig ábyrgð á málinu en varpa henni þess í stað á stjórn Orkuveitu Reykjavíkur eftir því sem kostur er,“ segja þau þrjú.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Umræða fyrir luktum dyrum

Dagur B. Eggertsson, Einar Þorsteinsson, Þórdís Lóa Þórhallsdóttir og Dóra Björt Guðkjónsdóttir oddvitar flokkanna sem mynda meirihlutann.

…að umræða fari fram fyrir luktum dyrum.

„Ákaflega mikilvægt er að borgarstjórn ræði málefni fyrirtækja í eigu borgarinnar eftir því sem aðstæður krefjast hverju sinni. Í því samhengi er þó rétt að umræðunni sé valin hentug tímasetning, sem meðal annars getur ráðist af sérstökum aðstæðum hjá viðkomandi fyrirtæki og/eða viðkvæmri stöðu þeirra tilteknu mála sem eftir atvikum stendur til að ræða og varða umrætt fyrirtæki,“ segir í bókun meirihlutans.

„Borgarfulltrúar eiga vissulega rétt á að tekið verði á dagskrá borgarstjórnar hvert það málefni sem sérstaklega varðar hagsmuni sveitarfélagsins eða verkefni þess en mikilvægt er að hafa í huga að það er borgarstjórn sjálf með aðkomu forsætisnefndar sem hefur um það endanlegt vald hvaða mál verða tekin á dagskrá fundar. Þrátt fyrir að það geti verið um að ræða mál sem á undir verksvið borgarstjórnar, þ.e. varðar hagsmuni sveitarfélagsins eða verkefni þess, getur málum verið þannig háttað að ekki verður hjá því komist að fresta umræðunni eða jafnvel taka ákvörðun um að umræða fari fram fyrir luktum dyrum. Er því talið rétt að málefni Ljósleiðarans verði rædd við fyrsta tækifæri um leið og þverpólitískur rýnihópur borgarráðs hefur lokið störfum.“

Leynd vekur upp tortryggni

Kolbrún Baldursdóttir Flokki fólksins:
„Þessi leynd gagnvart kjörnum fulltrúum samræmist augljóslega ekki sveitarstjórnarlögum og samþykktum borgarinnar.“

„Samningur hefur verið gerður milli Ljósleiðarans og Sýnar. Hann verður staðfestur af forstjóra OR og stjórn Ljósleiðarans. Flokkur fólksins á fulltrúa í hinum svokallaða rýnihóp Reykjavíkurborgar sem er varaborgarfulltrúi Flokks fólksins situr í. Oddviti Flokks fólksins hefur ekki fengið aðgang að gögnum málsins og hefur einnig varaborgarfulltrúanum verið sagt að hún megi hvorki sýna oddvita sínum gögn né ræða við hann um það sem fram fer í rýnihópnum. Þetta stenst engan skoðun enda eru kjörnir fulltrúar allir innherjar auk þess sem oddviti og varaborgarfulltrúi leysa hvorn annan af í forföllum á fundum ráða og nefnda  og í borgarstjórn,“ sagði Katrín Baldursdóttir Flokki fólksins.

„En slík er leyndin yfir þessu máli sem sannarlega vekur upp ákveðna tortryggni. Flokkur fólksins styður þá almennu reglu að öll mál sem lúta að sveitarfélaginu á að vera hægt að setja á dagskrá borgarstjórnar og skal þá meta ef nauðsynlegt er að fundur verði lokaður til að tryggja trúnað/leynd.  Borgarfulltrúar utan  meirihlutans verða að fá allar upplýsingar til að geta sinnt sínu lögboðna starfi. Þessi leynd gagnvart kjörnum fulltrúum samræmist augljóslega ekki sveitarstjórnarlögum og samþykktum borgarinnar. Flokkur fólksins vonar að mjög fljótt verði upplýst um allt sem snýr að þessum samningum.“


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: