- Advertisement -

Reykjavíkurflugvöllur verður til 2032 – en hvað verður um Landhelgisgæsluna?

„Meirihlutinn felldi tillögu mína um að tryggja veru Landhelgisgæslunnar á Reykjavíkurflugvelli til framtíðar,“ sagði Vigdís Hauksdóttir á fundi borgarráðs.

„Það eru skýr skilaboð borgarstjóra og viðreista meirihlutans að rétt væri að beina framtíðaruppbyggingu gæslunnar annað og að Hvassahraun á Reykjanesi væri líklegasti staðurinn fyrir nýjan flugvöll, eins og kom fram í máli formanns skipulags- og samgönguráðs í fjölmiðlum þann 21. maí sl. Þetta eru köld skilaboð til Landhelgisgæslunnar,“ sagði hún og hélt áfram:

„Reykjavíkurflugvöllur hefur gegnt afar mikilvægu hlutverki við að tengja landsmenn saman, landsbyggðina við höfuðborgina og Ísland við umheiminn í 80 ár. Það skilur ekki borgarstjóri og meirihlutinn. Þó hefur dómsmálaráðherra sagt frá því í fjölmiðlum að ríkið ætli að sækja um framkvæmdaleyfi til að byggja yfir Landhelgisgæsluna. Af þessu má ráða að engu er líkara en að borgarstjóri óski þess heitast að Gæslan fari fyrir fullt og allt úr Vatnsmýrinni og það sem fyrst. Hvers vegna var þá verið að staðsetja nýjan Landspítala á umferðareyju við Hringbraut og í nálægð við flugvöllinn vegna öryggissjónarmiða? Hver getur sýnt af sér slíkt ábyrgðarleysi að fórna öryggi landsmanna með þessum hætti? Jú, borgarstjórinn í Reykjavík,“ sagði Vigdís.

Meirihlutafólkið bókaði: „Flugvallarmálið er í ágætum farvegi og málefni Landhelgisgæslunnar einnig. Í gildi er samkomulag milli ríkis og borgar um að fullkanna flutnings vallarins en jafnframt að tryggja starfsemi hans á meðan á því stendur. Í nýjum tillögum að aðalskipulagsbreytingum er þannig lagt til að flugvöllurinn verði áfram til 2032 og jafnframt er skapað rými fyrir nýjan þyrlulendingarstað syðst í Vatnsmýri sem tengist nýja Landspítalanum með sérakreinum sem heimila forgangsakstur. Hins vegar er það stefna borgarinnar að flugvöllurinn eigi að víkja fyrir byggð og því ljóst að vaxtar- og þróunarmöguleikar flugtengdar starfsemi eru meiri annars staðar en í Vatnsmýri.“

Þú gætir haft áhuga á þessum

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: