- Advertisement -

Ríkið hirðir öll launin / „Bara núll krónur“

Guðmudnur Ingi Kristinsson:
En þá þurfti ég bara að herða sultarólina og vera launalaus í heilt ár.

„Það er ákveðinn hópur líka sem þekkir það að vera launalaus í heilt ár. Ég hef séð bréf, fengið bréf inn um lúguna hjá mér, tilkynningu um að bætur almannatrygginga, frá Tryggingastofnun ríkisins, verði núll krónur í heilt ár. Bara núll krónur,“ sagði Guðmundur Ingi Kristinsson, þingflokksformaður Flokks fólksins, á Alþingi í dag.

„Hvers vegna? Jú, vegna þess að ég fékk eingreiðslu frá lífeyrissjóði, eingreiðslu frá lífeyrissjóði sem reddaði mér til að borga upp uppsafnaðan halla. Þannig að ég átti ekkert eftir. En þá þurfti ég bara að herða sultarólina og vera launalaus í heilt ár,“ sagði Guðmundur Ingi þegar hann vitnaði til bréfsins sem hann fékk.

„Þessu hefur fólk lent í og þetta er ömurlegt og á ekki að eiga sér stað í okkar þjóðfélagi, svona ljóta hluti á ekki að gera. Þetta er bara ljótt. Miðað við þær upphæðir og allt sem er búið að segja að verði notað í þessar aðgerðir þá er það eiginlega gjörsamlega óskiljanlegt með öllu að þeir ætli sér að hunsa þennan stóra hóp og ætli að reyna að keyra þetta svona í gegn. En það er ákvörðun ríkisstjórnarinnar og er á hennar ábyrgð. Ég tek ekki þátt í því,“ sagði hann.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Fyrr í ræðunni sagði Guðmundur Ingi: „Við verðum að gera okkur grein fyrir því að það er ákveðinn hópur sem hefur beðið hjá Vinnumálastofnun allt upp í tíu eða ellefu vikur. Að vera launalaus ein mánaðamót er slæmt. Ef fólk er launalaust tvenn mánaðamót og þarf að borga leigu eða annan húsnæðiskostnað þá kemst það í vandræði. En að vera launalaus í fimm eða sex mánuði er skelfilegt.“


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: