- Advertisement -

Ríkisstjórn þeirra sem eru betur settir

Hafi núverandi stjórnmálaflokkar ekki kjark til að fara í þessar breytingar, þá þurfa þeir að víkja og leyfa umbótaröflum að komast að.

Marinó G. Njálsson.

Marinó G. Njálsson skrifaði:

Ítrekað kemur fram þessi misserin, að ríkisstjórnin hefur stillt sér upp með þeim sem betur eru settir í samfélaginu. Er virkilega sorglegt, en kemur ekki á óvart, að sá flokkur sem telur sig lengst til vinstri af flokkum á þingi skuli ítrekað ganga erinda auðvaldsins eða sitja hljóður hjá.

Hvað ætli þær séu orðnar margar skýrslurnar sem fletta ofan af spillingunni, svikunum og prettunum í samfélaginu? Sumar hafa fenigð að koma fyrir augu almennings, en öðrum er haldið kyrfilega leyndum. Nú, séu þær birtar, þá er það ekki fyrr en mesta bitið er farið úr þeim og tryggt er að stjórnvöld geti hunsað innihald þeirra.

Ríkisstjórnin gaf fyrirtækjum kvaðalaust fé til að standa af sér kóvid.

Hvort það var Birgir Ármannsson eða einhver annar þingmaður Sjálfstæðisflokksins sem viðurkenndi að flokkurinn yrði að koma sér í gegn um þann vanda sem Skýrslan olli flokknum og þannig hefur það verið með þær ansi margar. Menn bíða þar til þjóðin nennir ekki lengur að öskra og ekkert breytist.

Íslensk þjóð fór í gegn um gríðarlegar efnahagslegar þrengingar fyrir 13-14 árum, þar sem kom í ljós, að efnafólk og fjármagnseigendur höfðu leikið sér að fjöreggi þjóðarinna, þ.e. efnahagslegu sjálfstæði. Verum með það á hreinu, að litlu munaði að enn verr færi. Þessi leikur elítunnar kom henni í sjálfu sér illa, en hún fékk nánast allt afskrifað og gat ýmist byrjað með hreint borð eða hreint borð og helling af eignum. Þeir sem ekki voru hluti af elítunni máttu hins vegar lúta í gras og borga brúsann.

Spólum fram til dagsins í dag og í fjölmörgum fjörðum landsins eru norskir aðilar með nánast kvaðalaust fiskeldi. Ríkisstjórnin gaf fyrirtækjum kvaðalaust fé til að standa af sér kóvid. Þau launa skattgreiðendum greiðann með því að borga sér út margfalda upphæðina í arð, þrátt fyrir að grenja eins og stunginn grís yfir að hafa ekki fengið meira. Þessa dagana vilja bankamenn, sem mistókst að verða stórir, að ríkið hjálpi þeim að verða stórir með samruna við Íslandsbanka. Ég er alveg viss um, að fengi þjóðin að segja sína skoðun á málinu, yrði því hafnað. Við skulum vona, að það þurfi að setja lög um þennan samruna og að forseti vor hafi kjark til að senda þau til þjóðarinnar.

Meðan öllu þessu fer fram, þá leið Seðlabankanum svo illa yfir því að staða heimilanna væri góð, að hann ákvað að rústa henni enn einn ganginn. Meðan laun hafa kannski hækkað um tugi þúsunda á mánuði, þá hafa afborganir lánanna hækkað um margfalda þá upphæð. Og Bjarni og Kata standa hjá og segja: „Ekki benda á mig!“

Nú vil ég skora á ríkisstjórnina að grípa til aðgerða til stuðnings heimilunum og um leið sækja peningana þangað sem greinilega er nóg af þeim:

  • 1. Herma eftir Norðmönnum með gjöld á fiskeldi.
  • 2. Setja á stighækkandi fjármagnstekjuskatt, þannig að hæsta þrep hans sé ekki lægra en hæsta þrep tekjuskatts að viðbættu útsvari. Persónuafsláttur á fjármagnstekjuskatt verndi þá með lægstu fjármagnstekjurnar. Sveitafélögin fá ígildi útsvarsins til sín.
  • 3. Að skattleggja fjármagnstekjur sem fara úr landi í samræmi við lið 2. Vilji meintur erlendur aðili (sem er oftast í íslenskri eigu) fá endurgreiðslu samkvæmt tvísköttunarsamkomulagi, þá verði viðkomandi að leggja fram sannanir fyrir greiðslu skatta af fjármagnstekjunum í öðru landi. Endurgreiðslan nemur þeirri upphæð aðeins.
  • 4. Að innkalla allan kvóta innan 5 ára og koma á nýju kerfi við úthlutun aflaheimilda, þar sem greiða þarf árlega fyrir nýtingu afla byggt á svipuðum útreikningum og notaðir eru við „kaup“ á aflaheimildum milli útgerðaaðila fram að þessu.
  • 5. Setja auðlindagjald á orkuframleiðslu.
  • 6. Að setja hvalrekaskatt á hagnað fyrirtækja sem er úr hófi (skilgreina þarf hvað er úr hófi).
  • 7. Að setja lög um arðgreiðslur, sem tryggja hlut starfsmanna í hagnaði fyrirtækja með þaki á arðgreiðslur, þannig að arðgreiðslur geti ekki verið hærri en bónusar starfsfólks sem ekki gegnir stjórnunarstöðum.

Liðir 1-6 ættu að tryggja ríkissjóði nægar tekjur til að standa undir útgjöldum þess velferðarþjóðfélags sem við viljum að Ísland sé. Liður 7 ætti að koma á jafnvægi milli tekna launafólks og þeirra sem njóta afraksturs vinnu þessa sama fólks.

Svo er ýmislegt í viðbót sem þarf að laga til að gera samfélagið manneskjulegra og eftirsóknarvert til að búa í. Eins og staðan er núna, þá verður orðin skörp stéttaskipting eftir bara nokkur ár, í dúr við það sem við sjáum í Bandaríkjunum, Perú, Indlandi og Bangladesh svo nokkur lönd séu nefnd. Þar sem lítill hluti lifir í velmegun, en allir aðrir berast í bökkum. Hafi núverandi stjórnmálaflokkar ekki kjark til að fara í þessar breytingar, þá þurfa þeir að víkja og leyfa umbótaröflum að komast að.

„Grenjandi“ meirihlutinn vill breytingar!

Greinina birti Marinó á Facebooksíðu sinni.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: