Alþingi „Við sjáum núna í framhaldi af atburðinum í Grindavík að við vorum ekki nógu vel í stakk búin, ekki eins vel í stakk búinn a.m.k. og við ættum að vera til að takast á við svona atburð. Fyrir því eru ýmsar ástæður, ekki hvað síst sú að ríkisstjórnin hefur á undanförnum árum eytt alveg gríðarlega um efni fram, reyndar eytt það mikið um efni fram að á einu ári og ítrekað hefur hún eytt meiri peningum en myndi kosta að byggja heilan bæ á stærð við Grindavík,“ sagði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson.
„Skuldir ríkisins hafa aukist og fyrir vikið hefur möguleiki stjórnvalda að bregðast við áföllum minnkað um leið. Á sama tíma hefur ríkt óstjórn á öðrum sviðum; í húsnæðismálunum, í hælisleitendamálunum, í heilbrigðiskerfinu, í menntakerfinu, og allt gerir þetta okkur erfiðara að takast á við áföll þegar þau verða. Þess vegna vil ég undirstrika mikilvægi þess þegar við hugum að almannavörnum til langs tíma, getu okkar til að bregðast við óvæntum atburðum, að við lítum á alla þessa þætti. Spörum og tryggjum að kerfið okkar virki sem skyldi þannig að við séum sem best í stakk búin til að bregðast við þegar óvæntir atburðir gerast,“ sagði formaður Miðflokksins.