- Advertisement -

Sakar landlækni um fyrirlitningu

- fyrrverandi formaður Læknafélags Reykjavíkur er ósáttur við framgöngu landlæknis.

Steinn Jónsson, læknir og fyrrverandi formaður Læknafélags Reykjavíkur, segir landlækni sýna kollegum sínum sem hafa byggt upp íslenska heilbrigðiskerfið í góðri samvinnu við stjórnvöld fullkomna fyrirlitningu. „Slík vinnubrögð dæma sig sjálf,“ skrifar Steinn í Morgunblaðið.

Steinn skrifar langa grein en hann segir í seinni hluta hennar að þeir sem þekkja sérfræðilæknisþjónustu á Íslandi viti að hér sé um að ræða hagkvæmasta og skilvirkasta þáttinn í heilbrigðiskerfinu hér á landi. „SÍ ætti líklega að gera fleiri samninga til að bæta þjónustustigið. Mikil þörf er fyrir bætta geðheilbrigðisþjónustu, skortur er á geðlæknum og börn þurfa að bíða í ár eftir greiningarviðtölum. Sjálfstætt starfandi sálfræðingar búa yfir mikilli þekkingu sem gæti verið lykilþáttur í að leysa þessa krísu. Nú hafa aðeins þeir efnameiri ráð á þessari þjónustu.“

„Það er samdóma álit þeirra lækna sem hafa rætt við landlækni um sérstöðu Íslands í heilbrigðismálum að hann hafi ekki minnsta áhuga á að setja sig inn í þá hluti eða skoða ástæðurnar fyrir því að Ísland stendur jafn vel og raun ber vitni,“ skrifar Steinn. „Málflutningar hans einkennist af stóryrðum og sleggjudómum. Síðasta dæmið eru yfirlýsingar hans í fjölmiðum nú nýverið. Landlæknir hikar ekki við að senda ráðherra og ríkisstjórninni tóninn þegar hann fær ekki sitt fram umyrðalaust. Þá sýnir hann kollegum sínum sem hafa byggt upp íslenska heilbrigðiskerfið í góðri samvinnu við stjórnvöld fullkomna fyrirlitningu. Slík vinnubrögð dæma sig sjálf.“

-sme

Þú gætir haft áhuga á þessum

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: