Hrafn Magnússon skrifaði:
Utanríkisráðherra okkar, Þorgerður Katrín, á stundum í erfiðleikum með að skilgreina vinaþjóðir okkar. Í fyrstu taldi ráðherrann það vera Bandaríkin. Þau væru vagga lýðræðis og við hefðum gert við þau sérstakan herverndarsamning. Þegar Trump hótaði að hertaka Grænland og gera Kanada að fylki í Bandaríkjunum breyttist afstaða ráðherrans á svipstundu.
Nú taldi utanríkisráðherrann að við ættum frekar að snúa okkur til annarra NATO- ríkja, sem væru sérstakir unnendur vestræns lýðræðis. Það var hins vegar nokkuð snúið fyrir ráðherrann því meðal landa í NATO er t.d. Tyrkland, sem varla getur talist boðberi lýðræðis, svo og Ítalía og Ungverjaland, þar sem nú eru við völd öfga hægri stjórnir. Þá var lítið eftir fyrir ráðherrann að benda á sérstakar vinaþjóðir okkar Íslendinga.
Varla telst Bretland sérstök vinaþjóð eftir að hafa sett á okkur hryðjuverkalög í kjölfar hruns fjármálamarkaðanna haustið 2008. Þá var fátt um fína drætti nema Norðurlöndin, sem reyndar gerði ekkert Íslendingum til aðstoðar í hruninu mikla.
Sannleikurinn er auðvitað sá við eigum fyrst og fremst tvær eiginlegar vinaþjóðir. Það eru þjóðir sem réttu okkur hjálparhönd og veittu okkur hagstæð lán þegar mest á reyndi í hruninu. Þessar þjóðir eru Færeyingar og Pólverjar. Aðrar þjóðir hugsuðu bara um sinn eigin hag og sýndu enga tilburði að vera vinaþjóðir okkar Íslendinga þegar mest á reyndi.