- Advertisement -

Seðlabankinn skýtur yfir markið

Efnahagsmál Greiningardeild Landsbanka Íslands segir Seðlabankann hafa áætlað meiri verðbólgu í nóvember en raun varð á.

Lækkun verðlags í nóvember reyndist nokkuð meiri en markaðsaðilar höfðu spáð. Svo mikil lækkun verðlags virðist hafa komið Seðlabankanum á óvart miðað við verðbólguspá bankans. Yfirgnæfandi líkur eru á að nýjasta verðbólguspá Seðlabankans frá því í nóvember muni ofmeta verðbólguna á yfirstandandi fjórðungi. Seðlabankinn spáði að verðbólgan yrði 2,3 prósent á ársfjórðungnum og þarf vísitala neysluverðs að hækka um rúmlega 1,3 prósent í desember, þá færi ársverðbólgan í 3 prósent, til að sú spá rætist.

„Þetta er í rauninni saga síðustu mánaða. Verðbólgan hefur reynst töluvert minni en skammtímaspár Seðlabankans og ætlar því að verða bið á því að miklar launahækkanir í kjarasamningum skili sér í aukningu verðbólgunnar,“ segir í Hagsjá Landsbankans.

Landsbankinn segir síðustu vaxtaákvörðun hafa komið á óvart. „Fátt markvert út frá verðbólgusjónarmiðum hefur gerst frá því að Peningastefnunefndin ákvað að hækka vexti í nóvember síðastliðnum um 0,25 prósentur, en væntingar voru um óbreytta vexti. Skoðun okkar frá því síðast hefur ekki breyst hvað vaxtaákvörðunina varðar. Við teljum að nefndin haldi vöxtum óbreyttum og að verðbólguþróunin muni ráða þar mestu, en nefndin hefur lagt töluverða áherslu á að stýrivaxtabreytingar fari eftir þróun verðbólgunnar.“

Þú gætir haft áhuga á þessum

Landsbankamenn eru vissir um að vextir verði óbreyttir: „Við gerum ráð fyrir að peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands haldi stýrivöxtum óbreyttum á næsta vaxtaákvörðunarfundi. Ákvörðun nefndarinnar verður tilkynnt miðvikudaginn 9. desember næstkomandi.“


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: