- Advertisement -

Sjálfstæðisflokkurinn er farþegi í helreiðarrútu Vinstri grænna

Þorsteinn Sæmundsson:

Hvað eiga stuðningsmenn Sjálfstæðisflokksins að halda um flokkinn sinn sem sumir hverjir hafa stutt æðilengi? Hvað eiga þeir að halda?

„Það er með hreinum ólíkindum, herra forseti, að Sjálfstæðisflokkurinn er nánast eins og farþegi í þessari helreiðarrútu Vinstri grænna gegn heilbrigðiskerfinu,“ sagði einn allra besti ræðumaður Alþingis í háa herrans tíð, Þorsteinn Sæmundsson Miðflokki í júní í umræðu um fjáraukalög.

„Það er ekkert tekið á því í þessum fjáraukalögum að bæta neinu þar í,“ sagði Þorseinn. „Ég var að skoða lauslega samanburð á fjölda á biðlistum eftir nokkrum algengum aðgerðum frá því í október 2017 fram til janúar 2021. Samanburðurinn er sláandi í öllum algengustu aðgerðum, þ.e. augasteinum, liðskiptaaðgerðum, hjartaaðgerðum, kransæðaaðgerðum, grindarbotnsaðgerðum, legnámi, brjóstnámi, brjóstuppbyggingu o.s.frv. Biðlistarnir hafa margfaldast og ekki er gerð nein tilraun í þessu fjáraukalagafrumvarpi til að auka fé inn í heilbrigðiskerfið. Ef við tökum augasteinaaðgerðir sem dæmi voru þær í mjög góðu horfi. Þá voru einkaaðilar úti í bæ sem stóðu eiginlega undir því og báru ábyrgð á aðgerðunum og gekk nokkuð vel. Síðan var þetta rifið inn til ríkisins eins og fleira, með þegjandi samþykki Sjálfstæðisflokksins,“ sagði Þorsteinn.

„Kjósendur flokksins hljóta að spyrja hver stefna flokksins í heilbrigðismálum sé eða hvort flokkurinn hafi yfirleitt stefnu í heilbrigðismálum, og lái þeim hver sem vill að menn hugsi sig um þegar vangeta flokksins til að takast á við rétttrúnaðinn í heilbrigðismálum blasir við hverjum manni. Það er ekki bara þarna, herra forseti, sem kjósendur Sjálfstæðisflokksins hljóta að vera í vafa um sinn flokk. Mig langar að auglýsa eftir stefnu Sjálfstæðisflokksins í öryggis- og varnarmálum,“ sagði Þorsteinn.

Ég hefði viljað vera dauð fluga á vegg…

Áfram hélt Þorsteinn:

„Það vill svo til að mjög nýlega var hér á landi nýr utanríkisráðherra Bandaríkjanna sem er kallaður Tony af vinum sínum. Hann staldraði hér við í nokkra daga út af fundi í Norðurheimskautsráði. Herra forseti. Nú verð ég að segja sögu af Gulla og Tony. Þeir áttu sem sagt fund, utanríkisráðherra Íslands og utanríkisráðherra Bandaríkjanna. Ég vona satt að segja að þar hafi utanríkisráðherra Íslands gefist tími til að útskýra fyrir bandarískum starfsbróður sínum stefnu Sjálfstæðisflokksins í öryggis- og varnarmálum. Ég vona að Gulli hafi getað útskýrt fyrir Tony af hverju Sjálfstæðismenn í íslensku ríkisstjórninni afþakka 14 milljarða íslenskra króna greidda í dollurum til að vinna að endurbótum á flugvallarsvæðinu í Keflavík. Þannig er að flugvöllurinn í Keflavík hefur ákveðna stöðu í bandarískum varnarmálum, sem heitir á illa snaraðri íslensku „flugvöllur til reiðu“, þ.e. að þegar aðstæður skapast sé flugvöllurinn tilbúinn til að taka á móti flugumferð sem helgast af breyttum aðstæðum í varnarmálum.

Við erum á móti grænum peningum.

Ég hefði viljað vera dauð fluga á vegg, eins og konan fyrir norðan sagði, þegar Gulli útskýrði fyrir Tony stefnu Sjálfstæðisflokksins í varnarmálum og öryggismálum og útskýrði fyrir honum af hverju íslensk stjórnvöld, með Sjálfstæðisflokkinn eða utanríkisráðherra Vinstri grænna í broddi fylkingar, neita að taka við 14 milljörðum íslenskra króna til uppbyggingar á Suðurnesjum. Þetta fé var til ráðstöfunar í fyrra, ef ég man rétt, þegar atvinnuástand á Suðurnesjum var enn alvarlegra en það er nú og enn meira knýjandi að gera eitthvað í atvinnumálum. En utanríkisráðherra Vinstri grænna sagði: Nei, takk. Við tökum ekki við þessum peningum. Við erum á móti grænum peningum.

Ég segi aftur: Hvað eiga stuðningsmenn Sjálfstæðisflokksins að halda um flokkinn sinn sem sumir hverjir hafa stutt æðilengi? Hvað eiga þeir að halda? Því að þetta er yfirlýsing, það að taka ekki á móti peningum úr mannvirkjasjóði Atlantshafsbandalagsins til nauðsynlegrar uppbyggingar á flugvallarsvæðinu í Keflavík, heldur segja: Nei, takk, við ætlum ekki að taka við þessum peningum. Það er yfirlýsing.“


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: