Mér finnst líka mikilvægt að benda fólki á það að á meðan þessir þingmenn eru ekki að halda ræðu þá eru þeir að skrifa ræðu, flytja hana fyrir fjölskyldu sína eða æfa sig fyrir framan spegil.
Jón Gnarr.
Jón Gnarr, þingmaður Viðreisnar skrifaði í gærmorgun:
Spenntur fyrir deginum. Auðvitað langar mann til að geta hlustað á allar þessar ræður en ég verð líka að sætta mig við að það þarf að gera fleira en það sem gott þykir. Ég neyðist líka til að labba með hundinn, hitta fjölskylduna og fara í Bauhaus. En ég get huggað mig við að þetta er allt tekið upp og varðveitt.
Stór dagur hjá Jóni Pétri Zimsen sem fagnar í dag sinni tuttugustu ræðu um sama mál. Jón er ræðumaður sem nær að gera hverja ræðu einstaka. Tólfta ræðan hans er ógleymanleg en þó bara einsog fylleríisraus samanborið við þá sautjándu sem sýnir vel hvað hann er að þroskast sem ræðumaður.
Sigmundur Davíð og Miðflokkurinn…
Þegar ég er spurður að því hver sé minn uppáhalds ræðumaður þá vefst mér tunga um tönn. Ég á svo erfitt með að gera uppá milli. Mér finnst þau bara öll svo frábær. Sigmundur Davíð og Miðflokkurinn eru náttúrlega fagmenn í svona og eiga Íslandsmetið í málþófi sínu um Bókun 35. En skyldum við sjá það met slegið í sumar? Það verður spennandi að sjá.
Sjálfstæðisflokkurinn hefur náttúrlega lítið verið í stjórnarandstöðu. Mörgum gamalreyndum pólitíkusum fannst nokkur viðvaningsbragur af því að fara strax af stað með málþóf í fyrstu umræðu og sögðu að það væri einsog að brenna af stað og beint á harðasprett í langhlaupi og hætt við að fólk myndi fljótt þreytast og jafnvel örmagnast. En það hefur enn ekki gerst og þrátt fyrir reynsluleysi sitt, eftir að hafa lengstaf setið við stjórnarborðið, er Sjálfstæðisflokkurinn að sýna okkur að hann er enginn eftirbátur Miðflokksins í þessari fornu ræðulist. Flokkurinn hefur sýnt að hann er flokkur sem lærir af mistökum sínum og er nú að þróast hratt yfir í öflugan stjórnarandstöðuflokk sem vílar þetta at ekkert fyrir sér. Hann er kannski að taka þar upp keflið sem Píratar skildu eftir sig? Sjálfstæðisflokkurinn er að minnsta kosti orðinn flokkur sem hefur sýnt það að hann er engu síðri í stjórnarandstöðu en í stjórn.
Ólafur Adolfsson er að halda sína þrítugustu og aðra ræðu seinna í dag. Ég veit að það er mikil spenna yfir því að minnsta kosti innanhúss. Hvernig mun hann toppa síðustu ræðu?
Það getur ekkert gert að því þótt það sé fátt.
Mér finnst líka mikilvægt að benda fólki á það að á meðan þessir þingmenn eru ekki að halda ræðu þá eru þeir að skrifa ræðu, flytja hana fyrir fjölskyldu sína eða æfa sig fyrir framan spegil. Það kæmi mér heldur ekki á óvart ef þau væru að hittast utan funda og lesa ræður sínar fyrir hvert annað, samræma sig og stilla saman strengi sína svo orð þeirra megi óma samhljóma. Allt tal um að þetta „sé bara samið af gervigreind“ eða starfsfólki þingflokkanna eða jafnvel endurfluttar gamlar ræður, er innantómt tal sem ég vísa alfarið á bug.
Ég vil líka hér tæpa á einu, varðandi þessa umræðu um veiðigjöld, og það nöldur sem ég heyri stundum að þetta sé mál sem varði hag fárra en sé á kostnað allrar þjóðarinnar, að sumir séu hér að sjá ofsjónum yfir því að eiga á hættu að missa spón úr aski sínum sem verði eftir sem áður kúfullur og þetta sé bara sérhagsmunagæsla og níska. Það getur vel verið rétt. En við megum ekki gleyma því að fátt fólk er samt líka fólk. Það getur ekkert gert að því þótt það sé fátt. Gleymum því ekki.
Skemmtilegast finnst mér þegar þau springa úr hlátri og hlæja að sinni eigin fyndni og ræðusnilld í pontu. Þá er oft erfitt að hrífast ekki með og skella uppúr með þeim. Ég þekki það vel sjálfur úr gríninu þegar maður er eitthvað að sprella og getur ekki annað en hlegið að því sjálfur. Það er gott að geta hlegið að sjálfum sér og sérstaklega þakklátt þegar enginn annar er að því.
En þá ætla ég ekki að hafa þessar hugleiðingar lengri. Ég hlakka til dagsins. Hann lítur út fyrir að ætla að verða bjartur og sólríkur og við Klaki erum á leiðinni í Paradísardal.
Góðar stundir.