- Advertisement -

Skjálfti í stjórnarsamstarfinu – „hef enga þolinmæði fyrir þessu lengur“

Jón Gunnarsson skifaði á Facebook:

Ég er sammála Svandísi um að ástandið er óþolandi og að það þurfi ákvörðun um að opna fyrir aðkomu sjálfstætt starfandi í þessu samhengi m.a. að liðskiptaaðgerðum. Aftur á móti ósammála henni um að það þurfi nýtt fjármagn, það þarf fyrst og fremst að nýta fjármagnið betur. Sendi hér inn hluta úr grein sem ég skrifaði sl. haust ásamt Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur og Brynjari Níelssyni.

Þar bendum við á þær leiðir sem við Sjálfstæðismenn viljum fara. Ég hef enga þolinmæði fyrir þessu lengur og veit að svo er um fleiri landsmenn. Við getum ekki borið ábyrgð á þessu rugli lengur.

Úr frétt Morgunblaðsins í dag. Svar Svandísar fer hér á eftir:

Þú gætir haft áhuga á þessum

„Óásættanlegt ástand“

„Það er allavega ljóst að við höfum ekki náð nægilega góðum árangri varðandi liðskipti, hvorki hné né mjaðmir, þrátt fyrir umtalsvert fjármagn sem hefur sérstaklega verið sett í þetta. Það er áhyggjuefni.“

Þetta segir Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra, spurð um málið. Spurð hver sé ástæðan fyrir því að ríkið hafi ekki samið við einkaaðila um að sinna einhverjum af aðgerðunum segir Svandís: „Fyrst og fremst vegna þess að þetta eru aðskilin kerfi.“ Hún segir þurfa nýja ákvörðun og nýtt fjármagn til þess að semja við aðra en þá sem sinnt hafa
aðgerðunum innan opinbera kerfisins. Bendir hún á að í ár hafi í fyrsta skipti verið sett inn í kerfið varanlegt fjármagn til að sinna biðlistavanda vegna liðskiptaaðgerða. Hún segir
ástandið vissulega óásættanlegt og að unnið sé að lausnum í málinu. „Okkar heilbrigðiskerfi á að vera þannig að það sé tryggt að þeir sem eru í mestri þörf séu fremstir í röðinni.“

Brynjar og Áslaug Arna.

Úr grein okkar Áslaugar og Brynjars

„Sjálfstætt starfandi heilbrigðisstarfsfólk gegnir veigamiklu hlutverki í heilbrigðiskerfinu hér eins og í flestum þeim löndum sem við berum okkur saman við. Samspil þeirrar starfsemi við opinbera kerfið eykur augljóslega sveigjanleika og á þar með að geta aukið á hagkvæmni. Það er ekki skynsamleg ráðstöfum fjármuna að byggja upp opinbert kerfi sem er í stakk búið til að taka við öllum toppum í álagi sem kann að myndast.

Okkur virðist sem stefna núverandi heilbrigðisráðherra sé að auka starfsemi opinberrar heilbrigðisþjónustu og á sama tíma draga úr framlagi sjálfstætt starfandi sérfræðinga og heilbrigðisstofnana. Það er að okkar mati röng stefna og nauðsynlegt er, áður en stór skref verða stigin, að fyrir liggi langtímaáætlun í heilbrigðismálum okkar. Engum dytti t.a.m. í hug að fjölga starfsmönnum hjá Vegagerðinni þegar auknar framkvæmdir eru fram undan. Þá er farin sú leið að bjóða út fleiri og stærri verk til sjálfstætt starfandi verktakafyrirtækja.

Það þarf að bregðast við vandanum sem við okkur blasir í dag og grípa til úrræða sem vinna á biðlistum. Okkar skoðun er sú að það eigi að gera með því að bjóða út verkefni sem sjálfstætt starfandi fyrirtæki á heilbrigðissviði og starfsfólk þeirra geta leyst. Í þessu sambandi má nefna liðskiptaaðgerðir, vistun heilabilaðra og dagvistarúrræði fyrir eldri borgara og sjúklinga. Við höfum reynslu af aðgerð sem þessari þegar augnsteinaaðgerðir voru boðnar út fyrir nokkrum árum. Verkefnið tókst mjög vel, biðlisti hvarf á skömmum tíma og verðið fyrir aðgerðirnar var mjög hagkvæmt.

Það þarf að bregðast við vandanum sem við okkur blasir í dag og grípa til úrræða sem vinna á biðlistum. Ljósmynd: Daan Stevens.

Það er á okkar ábyrgð að fá sem besta nýtingu á því fjármagni sem til ráðstöfunar er hverju sinni. Það er engin glóra í þeirri sviðsmynd sem birtist okkur í umræðunni um liðskiptaaðgerðir. Sjúklingar eru sendir til útlanda á sama tíma og hægt er að framkvæma allt að tvær til þrjár aðgerðir fyrir verð einnar hjá sjálfstætt starfandi heilbrigðisfyrirtækjum hér heima. Þetta er fráleit ráðstöfun fjármagns og svar ráðherrans að ekki sé gert ráð fyrir fjármunum til að framkvæma aðgerðirnar hér heima er algerlega út í hött. Samhliða útboðsleið eins og þeirri sem við tölum fyrir væri eðlilegt að opinberar heilbrigðisstofnanir s.s. Landspítalinn – háskólasjúkrahús leigðu út aðstöðu til sjálfstætt starfandi aðila. Þannig fengist betri nýting á t.a.m. skurðstofum og tækjabúnaði sem ekki er í notkun stóran hluta sólarhringsins.

Markmiðið á að vera að leita allra leiða til að bæta þjónustu við fólk og nýtingu fjármuna, í stað þess að leggja stein í götu einkareksturs í heilbrigðiskerfinu, sem sannarlega mun leiða til bættrar þjónustu, betri nýtingar fjármuna og styttingar biðlista – öllum til hagsbóta.“


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: